137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:32]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Jú, ég hrósaði hv. formanni utanríkismálanefndar einmitt fyrir þá umræðu sem hann stýrði og þar tók hann vissulega tillit til þess sem Framsóknarflokkurinn hefur nefnt um meginhagsmuni. En ég ítrekaði jafnframt að þessir hagsmunir eru óumdeildir nánast. Þetta eru hagsmunir sem ég held að allir stjórnmálaflokkar séu sammála um að séu grundvallarhagsmunirnir í þessu máli. Munurinn liggur í því að Framsóknarflokkurinn skilgreindi þetta sem skilyrði.

Fyrst hv. þm. Róbert Marshall — jú, þarna er hann — var að spyrja um hvað í þessu fælist — hann hefur greinilega ekki nennt að hluta á ræðuna áðan. Ég skal spara honum að fletta þessu upp á netinu — þá felst það í því að menn hafi þetta sem raunverulegt skilyrði sem þeir séu tilbúnir til þess að standa vörð um. Þannig var hægt að ná þessari víðtæku sátt og ég leyfi mér að efast um að hv. formanni utanríkismálanefndar þyki eitthvað óeðlilegt við það í ljósi þess hvernig hlutirnir hafa gengið fyrir sig þó að fólk efist um að það sem talið er upp sem hagsmunir Íslands, hagsmunir sem allir eru sammála um, Framsóknarflokkurinn sem og aðrir, þ.e. að menn muni standa vörð um þá svona í ljósi þess hvernig Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur staðið vörð um sín ófrávíkjanlegu stefnumál.