137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:35]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég get ekki annað en ítrekað það sem ég hef sagt áður að fullt tilefni er til þess að efast um að þessi ríkisstjórn muni standa við hin fögru fyrirheit um samráð og að hún muni standa á sínu þegar á hólminn er komið. Þetta höfum við séð gerast hvað eftir annað frá því að Vinstri hreyfingin – grænt framboð komst í ríkisstjórn. Mér dettur í svipinn ekki í hug eitt einasta stefnumál þess flokks fyrir kosningar af meginstefnumálunum sem flokkurinn hefur ekki vikið frá með mjög afgerandi hætti eftir að hann komst í þessa ríkisstjórn.

Í ljósi þess hvernig haldið var á margumræddum Icesave-samningum, þar sem hagsmunirnir eru enn þá meiri en í þessu máli — þeim var fyrir borð varpað. Hæstv. utanríkisráðherra virðist ekki einu sinni telja þá skipta máli þó að hann fái skýrslu, lögfræðiálit um að hagsmunir Íslands séu sterkir — þá eiga menn svolítið erfitt með að trúa því að allt í einu verði algjör viðsnúningur þegar kemur að viðræðum við Evrópusambandið.