137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:51]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Ég veit að hún horfir dálítið mikið til sögunnar í þessu sambandi. Nú er allt breytingum undirorpið, alveg sérstaklega Evrópusambandið, og ef maður lítur eins og ég hef getið um áður 60 ár aftur í tímann og horfir á þær gífurlegu breytingar sem hafa orðið í Evrópusambandinu langar mig til að spyrja hv. þingmann — ég hef spurt hana nokkurs áður og mig langar að spyrja hana aftur: Hvernig sér hún Evrópusambandið eftir 60 ár?

Nú höfum við talað um að breytingar verði á fiskveiðistefnunni og meira að segja við Íslendingar vonumst til að við getum verið þar með ákveðið kennsluhlutverk, getum kennt Evrópusambandinu hvernig eigi að veiða fisk. Ef Evrópusambandið getur breytt reglunum um fiskveiðar í þessa áttina getur það líka breytt þeim í hina áttina. Það er eiginlega hægt að breyta öllu því sem gildir innan Evrópusambandsins eins og mönnum dettur í hug og ef Íslendingum líkar ekki eitthvað geta þeir farið. Í hvaða stöðu erum við þá til að andmæla þegar við erum orðin fastnegld við allt kerfið í Evrópusambandinu? Í hvaða stöðu erum við þá til að mótmæla þeim breytingum sem Evrópusambandið, 500 millj. manns, ákveður? Telur hv. þingmaður að voða mikið verði hlustað á 0,3 millj. á Íslandi þegar slíkar breytingar verða gerðar? Hefur hún enn þá þá trú að Íslendingar muni hafa afdrifarík áhrif á þróun Evrópusambandsins og það muni allt dansa eftir íslenskum töktum og tónum héðan í frá?