137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:52]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég hef enn þá trú að hlustað verði á Ísland ef það er í Evrópusambandinu. Ég hef sagt það áður og bent á að eðli Evrópusamstarfsins er að styrkja þær þjóðir sem í því eru. Það er samstarf til að styrkja þjóðirnar, ekki til að brjóta þær niður. Það er mjög einfalt. Ég veit að við erum ekki sammála um það, ég og hv. þm. Pétur H. Blöndal, og það verður bara svo að vera áfram.

Við höfum rætt það áður hvernig Evrópusambandið og heimurinn allur verði eftir 60 ár. Ég veit það ekki, en ef hv. þm. Pétur H. Blöndal telur að eftir 60 á verði íslenskri þjóð betur borgið ef hún stendur utan Evrópusambandsins en í því erum við þingmaðurinn enn þá ósammála og verðum væntanlega áfram.