137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:54]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Nýverið héldum við upp á 65 ára afmæli íslenska lýðveldisins og það er enn þá lengra síðan það varð fullvalda, árið 1918, og eiginlega frá þeim tíma, með skrykkjum þó, hefur staðan á Íslandi batnað. Við erum í miklu betri stöðu núna þrátt fyrir áfallið í fyrrahaust en við vorum 1918. Við vorum þá fátækasta þjóð í Evrópu eftir 600 ára samstarf við þjóðir suður í Evrópu eins og við erum að ganga í núna. Eftir 600 ára veru í tengslum við þjóð suður í Evrópu sem örugglega var ekki illviljuð vorum við orðin fátækasta þjóð í Evrópu. Núna erum við með ríkustu þjóðum í Evrópu og ég þakka það fullveldinu og sjálfstæðinu.

Hv. þingmaður ætlar að hverfa frá þessu og ég minni hv. þingmann á það hve lítinn skilning, þekkingu og áhuga Danir höfðu á málefnum Íslendinga á þeim tíma. Íslendingar sendu bænabréf til konungsins eða kansellísins til að fá leiðréttingu sinna mála og skilning, og fengu engan skilning. Nákvæmlega það sama verður uppi á pallborðinu þegar við erum gengin inn í Evrópusambandið. Ég fullyrði að nákvæmlega það sama verður uppi á pallborðinu þegar við göngum í Evrópusambandið, það verður lítill skilningur, engin þekking og enginn áhugi á málefnum Íslands í Brussel. Þar ganga fyrir málefni Þýskalands, Frakklands, Spánar og Bretlands — í þessari röð. Við komum nr. 518 og hugsanlega komumst við aldrei til að fá eitt eða neitt. Við munum náttúrlega upplifa, eins og fleiri þjóðir, að unga fólkið flytur burt, flytur til Brussels og annað, og ég geri ráð fyrir að margir þingmenn sjái mikla von um frama í Brussel ef við göngum inn í Brussel. En það verður ekki gott fyrir íslenska þjóð.