137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:56]
Horfa

Þór Saari (Bhr):

Virðulegi forseti, hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar. Mig langar að óska ríkisstjórninni til hamingju með það að vera komin með þetta mjög svo mikilvæga og stóra mál í þennan farveg sem það er komið í. Það var orðið tímabært að hægt yrði að takast á við málið með málefnalegri hætti en verið hefur undanfarin ár um hvað hugsanlega gæti komið út úr aðildarviðræðum. Nú fáum við að sjá svart á hvítu þegar þar að kemur hvað aðildarsamningur að Evrópusambandinu ber með sér og er það hið besta mál.

Afstaða Borgarahreyfingarinnar í þessu máli hefur verið sú að slíkum samningi sé hægt að vísa til þjóðaratkvæðagreiðslu, fyrr verði ekki hægt að taka af neinni alvöru á þeim álitamálum sem í honum gætu verið.

Það er, eins og ég sagði áðan, gleðilegt að hægt er að ræða þessa hugsanlegu aðild á raunverulegum nótum en ekki eingöngu á þeim fræðilegu nótum sem verið hafa hingað til. Umræðan hér á landi hefur að vissu leyti verið í gíslingu og ekki náð nægilega málefnalegum hæðum en það breytist vonandi þegar fyrir liggur hvernig aðildarsamningurinn er. Þetta er mikilvægt og stórt mál og í stóra samhenginu snýst það að hluta til um stöðu Íslands í samfélagi þjóða og það skjól sem flestum þjóðum er nauðsynlegt að hafa með vinveittum samningum við nágrannaríki sín, það skjól sem t.d. náið samstarf til áratuga við Bandaríkin veitti en er nú horfið.

Mikilvægi málsins er líka afgerandi, um það er ekki deilt, en sá asi sem verið hefur í gangi undanfarna daga og vikur við það að koma af stað samningaferlinu hefur valdið því að ekki hefur verið hægt að beina nægilega sjónum að þeirri neyð sem steðjar að almenningi á Íslandi vegna áherslunnar í þinginu á aðildarviðræðurnar. Ég hefði óskað þess að þær hefðu farið hægar og að efnahagslegum aðstæðum hér á landi hefði verið veitt meiri athygli.

Mikilvægt er að hafa í huga að í þessu sambandi mun Ísland hvorki fara inn í Evrópusambandið né taka upp evru sem gjaldmiðil fyrr en eftir nokkuð mörg ár, sennilega jafnvel 5–7 ár. Það er því mjög brýnt og í rauninni kannski brýnasta hagsmunamálið í þessu samningaferli öllu að Evrópski seðlabankinn fáist til að lýsa því yfir strax við upphaf viðræðnanna að hann muni styðja við íslensku krónuna eins og með þarf til að tryggja stöðugleika hennar. Ef slík yfirlýsing fæst ekki mun svigrúm Íslendinga í efnahagsmálum þrengjast enn frekar vegna þeirra inngönguskilyrða sem fylgja ESB-aðild sem bætast þá að einhverju leyti við þau þröngu skilyrði sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur sett Íslandi. Það er því svolítið mikilvægt mál að þeir sem fara til Brussels verði með þessa hugmynd í farteskinu og óski eftir viðræðum við Evrópska seðlabankann strax í upphafi.

Frú forseti. Umgjörðin um þetta mál í þinginu hefur að mörgu leyti verið til sóma og hv. formaður utanríkismálanefndar Árni Þór Sigurðsson hefur að sögn nefndarmanna staðið sig mjög vel og verið mjög sanngjarn í stýringu nefndarinnar. Fólk hefur haft orð á því að þetta sé til marks um breytt og betri vinnubrögð á þinginu en verið hafa mörg undanfarin ár og er það af hinu góða. Hins vegar hefur gassagangurinn sem einkennt hefur þetta mál á síðustu metrunum verið til vansa og er ástæða þess að fulltrúi Borgarahreyfingarinnar í nefndinni skrifaði undir nefndarálitið með fyrirvara. Það að nefndin skuli ekki sjálf hafa sest niður og farið sameiginlega og ítarlega yfir nefndarálitið, þótt ekki væri nema hluta úr degi, og reynt að ljúka málinu í meiri sátt er að mínu mati óskiljanlegt. Svona vinnulagi þarf helst að breyta í framtíðinni.

Frú forseti. Skilmálar þeir sem þinghópur Borgarahreyfingarinnar setti fyrir stuðningi við málið voru að við samningsgerðina yrðu til ráðgjafar a.m.k. tveir erlendir sérfræðingar með víðtæka sérþekkingu á samningsgerð og Evrópusambandinu, að við þjóðaratkvæðagreiðsluna muni hver kjósandi hafa eitt heilt atkvæði hver, en jafnt vægi atkvæða við almennar þingkosningar hér á landi hefur aldrei viðgengist, og að þjóðaratkvæðagreiðslan yrði lýðræðislega til fyrirmyndar. Þessi atriði öll eru í nefndaráliti utanríkismálanefndar og Borgarahreyfingin kann vel að meta það. Hvað varðar þjóðaratkvæðagreiðsluna segir í álitinu á bls. 33 og 34, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn telur brýnt að öll umgjörð þjóðaratkvæðagreiðslunnar verði opin og lýðræðisleg og er sérstaklega mikilvægt að vanda til þeirra verka í ljósi þess að þjóðaratkvæðagreiðslur eru afar fátíðar hér á landi. Í því efni er nauðsynlegt að setja sérstök lög um þjóðaratkvæðagreiðslur, en tvö frumvörp þar að lútandi liggja nú fyrir Alþingi. Meiri hlutinn leggur til að stofnuð verði sérstök skrifstofa, Lýðræðisstofa, t.d. á vegum umboðsmanns Alþingis sem þá mundi ráða starfsmenn stofunnar eftir því sem verkefni gefa tilefni til.

Í tillögunni er gert ráð fyrir að Lýðræðisstofa fari með framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu og ákveði efni og orðalag þeirrar spurningar sem lögð verður fyrir kjósendur. Einnig ákveði hún kjördag fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu, þó eigi síðar en sjö mánuðum eftir að ákveðið er að efna til hennar. Stofan skuli sjá um auglýsingu atkvæðagreiðslunnar með áberandi hætti og þar skuli einnig birta spurninguna sem lögð verður fyrir kjósendur. Þá verði Lýðræðisstofu falið að standa fyrir víðtækri kynningu á aðildarsamningnum og senda hlutlaust kynningarefni sem og aðildarsamninginn öllum heimilum í landinu eigi síðar en mánuði fyrir atkvæðagreiðsluna. Mikilvægt er að á kjörseðli komi skýrt fram spurning um hvort kjósandi samþykki þá tillögu sem borin er fram og gefnir eftirtaldir tveir svarmöguleikar: „já“ eða „nei“. Lýðræðisstofa setji nánari reglur um útlit og frágang kjörseðla. Dómsmálaráðuneytið lætur yfirkjörstjórnum í té kjörseðla, sem nota skal við þjóðaratkvæðagreiðsluna og annast framsendingu þeirra til undirkjörstjórna með sama hætti og kjörseðla við alþingiskosningar. Þjóðaratkvæðagreiðslan um aðildarsamning að ESB skal haldin sérstaklega og ekki samhliða öðrum almennum kosningum. Til þess að spurningin í þjóðaratkvæðagreiðslu teljist samþykkt þarf meiri hluti þeirra sem þátt taka í atkvæðagreiðslunni að vera fylgjandi henni. Um kosningarrétt og kjörskrár til afnota í þjóðaratkvæðagreiðslu skal fara á sama hátt og við alþingiskosningar. […] Kærur um ólögmæti þjóðaratkvæðagreiðslu, aðrar en refsikærur, skulu sendar Lýðræðisstofu eigi síðar en sjö dögum eftir að atkvæðagreiðslan fór fram“ o.s.frv. eins og nánar er kveðið á um í nefndarálitinu og atriðum þar er varða Lýðræðisstofu.

Þessi atriði eru að mati Borgarahreyfingarinnar mjög nauðsynleg til að þessi atkvæðagreiðsla geti farið fram á sem hlutlausastan og bestan hátt og eru í samræmi við frumvarp Borgarahreyfingarinnar, þskj. 149, 117. mál, um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna. Samþykkt þess frumvarps einhvern tíma á næstunni yrði sennilega eitthvert mesta framfaraspor í lýðræðisátt á Íslandi sem tekið hefur verið frá stofnun lýðveldisins og þegar kemur að því að þjóðaratkvæðagreiðslur verða orðnar bindandi og komnar í stjórnarskrá Íslands yrði áðurgreint frumvarp einmitt lög lýðveldisins sem vel tryggðu lýðræðislega aðkomu almennings að stjórn landsins sem og að veita þinginu það nauðsynlega aðhald sem fyllilega er þörf á.

Frú forseti. Þegar þar að kemur verður gaman að takast á við umræðuna um aðildarsamninginn um Evrópusambandið. Þangað til óska ég viðræðunefndinni og viðræðunum alls hins besta og hins mesta velfarnaðar.