137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:04]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Efnislega get ég tekið undir flest ef ekki allt sem kom fram í ræðu hjá hv. þingmanni og sérstaklega fagna ég hugmyndinni um Lýðræðisstofu — ég held að það væri einkar heppilegur aðili til að halda úti allri framkvæmd á þjóðaratkvæðagreiðslu. Við vitum að ef upp koma deilur eða efi um hlutlausa framkvæmd á kynningarefni, spurningunni og öðru þá varpar það skugga á framkvæmdina alla og atkvæðagreiðsluna sem slíka. Í þeirri framtíð sem við sjáum fyrir Ísland, að þjóðaratkvæðagreiðslur verði tíðum um öll stærstu málin, er þetta mjög mikilvægt grundvallaratriði. Ég lýsi eindregnum stuðningi við tillögu Borgarahreyfingarinnar um Lýðræðisstofuna í þessu atriði.

Annað sem ég vil spyrja hv. þingmann um lýtur að gjaldmiðilsmálunum sem svo sannarlega eru drifkrafturinn í vilja margra til að sækja um aðild að Evrópusambandinu — og hefur verið í nokkur ár, ekki síst frá því að krónan hrundi um páskana 2008 en þá varð að mörgu leyti ljóst að stefndi í mikið óefni sem endaði í því hruni sem varð í fyrra. Þá leggja margir mikið kapp á það að við komumst í einhvers konar samskipti við evrópska seðlabanka sem tryggi okkur stuðning við krónuna þannig að við getum fyrr komið verði á íslensku krónuna og efnahagsbati verði skjótari en við sjáum núna þegar við upplifum hve krónan er veik — hún veikist áfram og við sjáum ekki út úr því.

Þingmaðurinn nefndi, og það er líka nefnt í nefndarálitinu, að við eigum að leggja kapp á viðræður um gjaldmiðilsmál sem forgangsverkefni í viðræðuferlinu og leita eftir samkomulagi við ESB og ECB um stuðning við krónuna. Ég veit að þingmaðurinn er hagfræðingur, hefur unnið sem slíkur bæði í seðlabanka erlendis og hjá alþjóðastofnunum — mig langaði að fá mat hans á því hve raunhæft hann telji að taka upp viðræður strax við Evrópska seðlabankann um að koma að því að koma aftur verði á krónuna og styðja gjaldmiðilinn okkar til einhvers raunhæfs jafnvægisgengis.