137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:07]
Horfa

Þór Saari (Bhr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni spurninguna og álit hans á Lýðræðisstofu, hún er okkur mikið hjartans mál. Hvað varðar gjaldmiðilsmálin hefur það verið stefna okkar í Borgarahreyfingunni að þar sem alllangt er í það að Ísland geti gengið í Evrópusambandið og tekið upp evruna hefði þurft að fara út í þá aðgerð að taka einhliða upp annan gjaldmiðil. Við teljum að krónan, eins og hún stendur í dag, eigi sér ekki viðreisnar von og þær forsendur sem gefnar eru í ýmsum hagspám, þar á meðal hagspá Seðlabankans, um að gengi hennar muni styrkjast um 20% á næsta ári, séu algerlega óraunhæfar.

Það mun að öllum líkindum ekki ná fram að ganga. Í aðildarviðræðum annarra þjóða við Evrópusambandið, að ég best veit, er hins vegar nánast fordæmalaust að það veiti umsóknarríkjum beina aðild að evrunni strax í upphafi. Mér finnst því einboðið að leitað verði þeirra leiða sem hugsanlegar eru til að fá stuðning við krónuna á meðan við þurfum að búa við hana — ég veit ekki með hvaða hætti en hægt er að vísa til þess að hér á landi hafi orðið algert efnahagshrun og fjármálahrun og ef ekki náist stuðningur við gjaldmiðilinn mjög fljótlega séu líkur á því að það hrun muni hugsanlega halda áfram og staða efnahagsmála á Íslandi muni einfaldlega versna áfram til muna og skuldastaða þjóðarbúsins verða jafnvel óbærileg. Það er því mikilvægt að reynt sé að finna leið í þessu máli eins fljótt og hægt er.