137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:18]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Full ástæða er til þess í upphafi að þakka nefndarmönnum í utanríkismálanefnd Alþingis sem á undanförnum vikum hafa unnið gott starf undir forustu Árna Þórs Sigurðssonar alþingismanns í þessu stóra máli sem miklu máli skiptir um framtíð þjóðarinnar. Ég vil láta þess getið að meirihlutaálitið sem hér liggur fyrir er fróðlegt og þar er líka að finna mjög efnismikla greiningu á helstu viðhorfum og meginhagsmunum sem gæta þarf að við umsókn Íslands að Evrópusambandinu. Í störfum sínum hefur nefndin gert sér far um að fjalla samhliða um þær tvær þingsályktunartillögur sem fyrir lágu í því skyni að ná sem víðtækastri samstöðu á Alþingi og meðal þjóðarinnar um vegvísi að aðildarviðræðum við ESB, og er það vel. Ég tel að við séum vel sett með þær tillögur um verklag og það skipulag sem lagt er til að viðhaft verði af framkvæmdarvaldinu og Alþingi í sambandi við upphaf aðildarviðræðnanna, framgang þeirra og staðfestingu mögulegs aðildarsamnings nái þetta mál fram að ganga. Málið yrði á ábyrgð utanríkisráðherra en endanlegar ákvarðanir, um málefni tengd samningaviðræðum og samningsafstöðu á einstökum sviðum, yrðu í höndum ríkisstjórnar. Utanríkismálanefnd hefur síðan teiknað upp hvernig samráði og samstarfi um aðildarviðræður verði háttað við Alþingi, hagsmunaaðila á breiðum grunni og við almenning. Það er ákaflega mikilvægt að lista ferlið upp með þessum hætti og að sú hlið mála sé í föstum og gagnsæjum farvegi.

Mér finnst miklu skipta að lagt er til að sérstakur hópur verði settur á fót til að annast víðtæka upplýsingamiðlun á sem breiðustum grunni og að fyllstu hlutlægni sé gætt til almennings, félagasamtaka og fjölmiðla. Brýnt er að þarna takist vel til og að upplýsingastarfið verði sniðið að því sem best hefur þótt heppnast hjá öðrum þjóðum í svipuðum sporum — og ég vek athygli á því að í álitinu er það rökstutt að núverandi framkvæmdastjórn Evrópusambandsins þekki vel til íslenskra mála og það sé lag fyrir Ísland að notfæra sér þá staðreynd að henni hefur verið falið að starfa út árið og jafnvel fram á næsta ár. Vitneskja um stöðu Íslands í Evrópusamstarfi og á innri markaði EES sé góð um þessar mundir og því réttur tími fyrir umsókn af Íslands hálfu.

Þegar álitið er lesið verður augljóst að Íslendingar væru með aðildarumsókn að ganga til samninga við 27 ríki en ekki aðeins ráðherraráðið eða framkvæmdastjórnina í Brussel. Samningar hefjast ekki nema með samþykki allra aðildarríkja og lýkur ekki fyrr en með samþykki allra þjóðþinga. Hverja einustu samningsafstöðu í samningsköflunum 35 verður að leggja fyrir aðildarríkin og einróma samþykki aðildarríkjanna þarf til að hefja viðræður og ljúka þeim um hvern og einn kafla. Mér finnst þetta mikilvægt atriði, það sýnir að við værum að ganga til samninga við þjóðir og samskiptavettvang þeirra en ekki við samevrópska ríkisstjórn eins og stundum er látið í veðri vaka. Greinargerðin um meginhagsmuni Íslands í aðildarviðræðunum við ESB er verulegur fengur fyrir umræðuna á Íslandi og það finnst mér koma vel í ljós, hvort sem rætt er um auðlindir, sjávarútveg eða landbúnað, að hvort tveggja er nauðsynlegt að ræða undir bæði þröngu sjónarhorni og víðu. Ekki verður hjá því vikist að ræða hvernig ESB-reglur geta kallað á verulegar breytingar eða hraða aðlögun í einstökum greinum, en ekki má heldur gleyma að ræða um málið út frá heildarhagsmunum atvinnuvega, byggðarlaga og þjóðarbúsins. Feli Alþingi ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild Íslands að ESB og leggja aðildarsamning í dóm þjóðarinnar að loknum viðræðum við sambandið þýðir það ekki að við séum sammála um að aðild sé æskileg. Hvorki hér né annars staðar á Norðurlöndum hefur eining ríkt um slík mál. En við erum nálægt því að komast að samkomulagi um aðferðafræðina við að ná niðurstöðu í þessu deilumáli á lýðræðislegan og sanngjarnan hátt og þannig ber okkur að vinna.

Íslendingar standa á krossgötum og þurfa að taka ákvörðun um hvert skuli stefna. Ákveði Alþingi að sækja um aðild að Evrópusambandinu greiðir það að mínum dómi götuna fyrir skjótri endurreisn íslensks efnahagslífs. Umsókn að sambandinu felur í sér skýr og traustvekjandi skilaboð til umheimsins og sem umsóknarríki mun Ísland hafa sterkari stöðu en ella. Það skiptir miklu í þeirri vaxandi umræðu sem nú fer í hönd, um hvort Ísland eigi að ganga í ESB, að allir stjórnmálaflokkar á Alþingi geri grein fyrir stefnu sinni á þann hátt að enginn Íslendingur þurfi að velkjast í vafa um hvaða valkostir séu í boði. Við sem erum fylgjandi aðild að ESB og Evrópska myntbandalaginu, að gefnum ákveðnum skilyrðum og forsendum, þurfum að gera ljósa grein fyrir því hvernig aðildin mun tryggja Íslandi efnahagslegt og pólitískt öryggi með stöðugum gjaldmiðli, samkeppnishæfu viðskiptaumhverfi og sterkari alþjóðlegri stöðu. Þeir sem leggjast gegn aðild að ESB þurfa að útskýra fyrir þjóðinni hvernig megi betur styrkja stöðu Íslands á alþjóðavettvangi og ná efnahagslegum stöðugleika eftir öðrum leiðum. Þeir þurfa jafnframt að skýra hvað valkostir þeirra þýða í lífskjörum og framtíðarhorfum.

Íslendingar eiga rétt á því að bæði fylgismenn og andstæðingar Evrópusambandsaðildar setji fram skýra framtíðarsýn. Alþingi og ríkisstjórn þurfa að tryggja að slík umræða geti átt sér stað á upplýstan og yfirvegaðan hátt. Íslendingar eiga rétt á því að vita hvað er í boði, um kosti og galla aðildar, og það verður ekki gert nema gengið verði til aðildarviðræðna við Evrópusambandið og úr því verði skorið hvort viðunandi aðildarsamningur næst sem tekur fullt tillit til þeirra meginsjónarmiða og meginhagsmuna sem utanríkismálanefnd hefur svo vel skilgreint í störfum sínum á síðustu vikum. Þjóðin mun síðan eiga síðasta orðið og ákvörðunarréttinn í þessu stórmáli sem markar stefnu landsins næstu áratugina í þýðingarmiklum viðskipta- og samskiptamálum við aðrar þjóðir.

Í nefndaráliti meiri hlutans er ítarlega fjallað um ýmsa kosti í sambandi við þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er fullkomlega eðlilegt að efnt skuli til þjóðaratkvæðagreiðslu þegar og ef aðildarsamningur við Evrópusambandið liggur fyrir. Hljóti hann samþykki þjóðarinnar er það rökrétt framhald að breyta stjórnarskránni til að heimila framsal valdþátta til yfirþjóðlegrar stofnunar. Þá stjórnarskrárbreytingu þarf að leggja fyrir þjóðina í almennum kosningum og aðildarsamningur hlýtur síðan staðfestingu nýs Alþingis, þá fyrst væri hægt að fullgilda samninginn. Ég vek athygli á umfjöllun meiri hluta utanríkismálanefndar um vandaðan undirbúning þjóðaratkvæðagreiðslu. Hugmyndir nefndarinnar um Lýðræðisstofu, sem annist alla umgjörð þjóðaratkvæðis og leggi upp spurningu til þjóðarinnar, eru mjög áhugaverðar og vandaðar í allri framsetningu. Af þeirri umfjöllun er ljóst að þjóðaratkvæði er ekkert sem rokið er í með stuttum fyrirvara. Þar sem lítil hefð er fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum hér á landi þarf að vanda allan undirbúning og ég er ekki sammála því og tel það óraunhæfa hugmynd að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu á næstu vikum um hvort hefja skuli aðildarviðræður við ESB.

Ég hef áður látið í ljós þá skoðun að fólk þurfi að vita hvað er í boði í aðildarsamningum til að geta tekið afstöðu, enda má öllum vera ljóst af umræðunni að mjög deildar meiningar eru um það sem Íslendingum kann að bjóðast af hálfu ESB. Aðildarviðræður eru til þess að fá úr því skorið og því er eðlilegt að það sé niðurstaða aðildarviðræðna sem sé til ákvörðunar fyrir þjóðina þegar þar að kemur eftir vandaðan og traustan undirbúning þar sem tekin verður afstaða til raunverulegra og skjalfestra kosta. Einungis þannig getum við á raunsæjan hátt metið kosti þess og galla að Ísland gerist aðili að samstarfi 27 ríkja innan vébanda Evrópusambandsins.