137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:30]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Ég held að þessi tillaga sem við erum að fjalla um, aðildarviðræður við ESB, fjalli ekki síst um afkomu heimilanna og fyrirtækjanna í landinu í framtíðinni. (PHB: Eftir 10 ár.) Ég hef ekki sömu trú á því og hv. þingmaður sem ber helst þá von í brjósti að við göngum aldrei til samninga við Evrópusambandið. Ég hef trú á að það geti gerst miklu fyrr en hv. þingmaður segir.

Það kemur alveg skýrt fram í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna á hvaða grundvelli flokkarnir náðu saman um þetta ESB-mál. Það er alveg skýrt hvaða skilyrði eru þar sett og ýmsir fyrirvarar um niðurstöðu. Það er líka rétt sem þar kemur fram að það stendur alveg skýrum stöfum:

„Flokkarnir eru sammála um að virða ólíkar áherslur hvors um sig gagnvart aðild að Evrópusambandinu og rétt þeirra til málflutnings og baráttu úti í samfélaginu í samræmi við afstöðu sína og hafa fyrirvara um samningsniðurstöðuna líkt og var í Noregi á sínum tíma.“

Þess vegna kemur ekki á óvart, eins og ég sagði, að einstaka þingmenn Vinstri grænna láti í ljós skoðanir sínar í ræðustól að því er varðar afstöðu til hugmynda og tillagna sem hafa komið hér fram, m.a. þeirrar tillögu frá sjálfstæðismönnum sem ég tel afar óskynsamlega, að láta þjóðina greiða atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu um kosti og galla á Evrópusambandsaðild þegar við vitum ekki einu sinni hvað er í boði. (TÞH: Evrópusambandið.)