137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:32]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra er eini stjórnmálamaðurinn sem ég veit um sem veit ekki hvað er í boði þegar sótt er um aðild að Evrópusambandinu og er það frétt í sjálfu sér.

Það var athyglisvert að hæstv. forsætisráðherra talar mikið um mikilvægi þess að hér fari fram lýðræðisleg umræða en sýnir síðan í verki hvernig að henni verður staðið. Það verður þannig staðið að henni að hún verður á þeim tíma ársins og þeim tíma sólarhringsins sem hún vekur sem allra minnsta athygli og sem minnst kastljós verður á þessari umræðu í þinginu. Það er eins ólýðræðislegt og getur orðið. Ef hæstv. forsætisráðherra heldur því fram að hér sé um einhverja lýðræðisást að ræða er það hrein og klár hræsni, ekkert annað en hræsni. Það að hóta hér kvöldfundum, fundum í júlí, um helgar, í þessu máli sem hæstv. ráðherra talar um að sé svo mikilvægt er ekki lýðræðislegt. Það er hræsni að tala þannig og ég bið hæstv. ráðherra að nota ekki lýðræðið sem röksemd í þessu máli vegna þess að svo sannarlega er unnið eftir allt öðrum formerkjum.

Virðulegi forseti. Ég ætla að spyrja að öðru. Við erum í miklum deilum, reyndar svo að margir tala um að við séum allt að því í stríði, viðskiptastríði við Evrópusambandslöndin, og ekki ósvipað og við vorum í landhelgismálinu á sínum tíma. Það hefði aldrei hvarflað að neinum forustumanni í stjórnmálum á þeim tíma þegar við stóðum í þeim deilum við Evrópusambandsríkin að biðja um aðild að Evrópusambandinu. Ég spyr hæstv. ráðherra: Truflar það hæstv. forsætisráðherra Íslands ekkert að koma á sama tíma og þessi ríki taka á okkur og brjóta rétt okkar Íslendinga og biðja um aðgang að klúbbnum þeirra?