137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:36]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra hefur alveg furðu miklar skoðanir á því hvað felst í inngöngu okkar í Evrópusambandið miðað við að hafa ekki hugmynd um það og vilja endilega sækja um til að sjá hvað er innan borðs. Hér segir hæstv. ráðherra hreint og klárt að Ísland hafi verið kúgað af Evrópusambandsríkjunum vegna þess að Ísland var ekki innan Evrópusambandsins. Það er það sem hæstv. ráðherra var að segja og það eru ansi miklar fréttir frá hæstv. forsætisráðherra sem væntanlega er í þó nokkuð miklum samskiptum við kollega sína annars staðar í álfunni að Ísland hafi verið kúgað sérstaklega vegna þess að Ísland var ekki innan Evrópusambandsins. Það er vægast sagt alvarlegt mál. (PHB: Kúga okkur inn.)

Það skyldi þó ekki vera að menn væru að sækja um aðild að Evrópusambandinu, fara til aðilanna sem eru búnir að beita okkur þessum órétti, til þess að biðja um einhverja ölmusu í tengslum við Icesave-málið? Það skyldi þó ekki vera?

Ég segi bara eitt, virðulegi forseti: Lítið er stolt forsætisráðherra. Ég sé í anda að á tímum t.d. landhelgisdeilunnar hefði íslenskur forsætisráðherra sótt um aðild að Efnahagsbandalaginu. Það er kannski gamaldags að vera stoltur af því að vera Íslendingur en ég gengst þá bara við því. Ég verð að segja að það síðasta sem ég átti von á var að í miðri Icesave-deilu væru menn í fullri alvöru að ræða þessi mál eins og hér er gert.