137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:12]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Um tíma var ég ekki viss hvort hv. þingmaður væri að móðga mig þegar hann sagði að skoðanir mínar væru oft nærri Samfylkingunni í þessu máli. Ég ætla hins vegar að benda honum á og ég vona að hann hafi hlustað á ræðu mína þar sem ég fór einmitt yfir það áðan að ég tel kostina m.a. við Evrópusambandið vera að þar felst ákveðin lausn í gjaldmiðilsmálum okkar Íslendinga en ekki síður að orðspor okkar hefur beðið hnekki og ég tel að það skipti miklu máli að við njótum þess hugsanlega að vera innan Evrópusambandsins við þá uppbyggingu sem fram undan er.

Skýru svörin eru þau að ég vil fá þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Það hef ég sagt, og ef hv. þingmaður hefur farið yfir allt sem ég hef sagt m.a. á viðskiptaþingi þar sem ég sagði nákvæmlega þetta: Notum ferðina, kosningarnar, og spyrjum þjóðina að því hvort sækja eigi um aðild að ESB. Frá því hef ég ekki hvikað.