137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:16]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Einhverra hluta vegna komast stjórnmálaflokkar að niðurstöðu um það að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Eru þeir sem starfa innan stjórnmálaflokkanna svona miklu, miklu upplýstari en þjóðin sjálf að komast að niðurstöðu? (Gripið fram í: … trúarbrögð.) Sumir stjórnmálaflokkar hafa komist að þeirri niðurstöðu að hafa tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu, aðrir ekki. Ég tel það skipta miklu máli að þjóðin fái þessa tillögu og ekki síst núna — ég tel það skipta miklu máli, ekki síst núna, að þjóðin fái þetta tækifæri að segja til um og hafa áhrif á framgang þessa máls þannig að við getum líka farið að tala um eitthvað annað þannig að líka Samfylkingin hafi ekki alltaf þessa fjarvistarsönnun: Það er ekki búið að útkljá ESB, við getum ekki rætt annað á meðan.

Ég treysti þjóðinni. Ef stjórnmálaflokkar geta komist að niðurstöðu um að það eigi að sækja um aðild að ESB þá treysti ég þjóðinni alveg til þess.