137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:21]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég mundi fara varlega í að ræða hér um það hvernig fólk engist í stjórnarsamstarfi (REÁ: Ójá, við engjumst.) og hver kúgar hvern í því eins og hér hefur verið rætt svolítið í dag. (VigH: Er einhver vafi á því?) Það er ósköp einfaldlega þannig og svo virðist sem þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks geti ekki meðtekið það að hér er flutt tillaga um að leggja til að við sækjum um aðild að Evrópusambandinu. Hún er hér til afgreiðslu. Hér er stundin runnin upp til þess að taka afstöðu til þess hvort Ísland eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Spurningin gæti ekki verið skýrari. Ábyrgð og hlutverk hinna kjörnu fulltrúa, hv. þingmanna á Alþingi Íslendinga er algjörlega skýrt.