137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:25]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Að öllu jöfnu samþykkir Alþingi vantraust á viðkomandi ráðherra og ríkisstjórnin fellur — það er svo einfalt — ef ráðherrann fer ekki eftir því sem Alþingi hefur samþykkt og sagt frá. Það er akkúrat (Gripið fram í.) þessi punktur sem varð til þess að utanríkismálanefnd dró einhverra hluta vegna úr því mikla valdi sem utanríkisráðherra átti að hafa í upphaflegu tillögunni og færði það í ríkari mæli til þingsins. Menn verða bara að geta sér til um af hverju það er.

Það ríkir ákveðið vantraust nefnilega á milli þingsins og ríkisstjórnarinnar og þá sérstaklega gagnvart utanríkisráðherra í þessu máli því að menn hafa ekki verið að koma hreint fram, hvorki í þessu máli né öðrum. Það er verið að efla þingið og aðkomu þess í þessari meðhöndlun. En það er alveg ljóst af minni hálfu að ef utanríkisráðherra fer út fyrir umboð sitt, fer út fyrir það sem er samþykkt hér á þingi, þá verður samþykkt vantraust á hann ef hann hefur ekki þær gáfur að segja af sér áður.