137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:48]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var mjög stutt og snaggaralegt hjá hæstv. ráðherra. Hann þarf ekki að líta í augun á mér því að eins og gefur að skilja var ég ekki kjósandi hans. Ég spurði hann að því hvernig hann gæti þann 10. júlí 2009 litið í augu kjósenda sinn eftir þau orð og þá atburði sem hafa átt sér stað á hinu háa Alþingi í dag. Hvernig má það vera að hæstv. fjármálaráðherra gengur til þessara kosninga sem nýlega eru liðnar, lofandi kjósendum því að ESB sé ekki á dagskrá flokksins, vitandi annað sem hann tjáði okkur hér áðan því að hann sagði að þessi ríkisstjórn, sem var minnihlutaríkisstjórn áður og er það náttúrlega raunverulega í dag líka — því að ríkisstjórnin þarf að sækja sér fylgi til annarra flokka — hvernig getur hann staðið þennan dag, horft í augu kjósenda sinna og sagt: Ég sveik ykkur.