137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:49]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er nú svo að ég hef svolítið meiri reynslu af því að líta í augun á kjósendum en hv. þingmaður. Ég hef gert það alloft. Ég hef aldrei verið feiminn við að leggja mín verk í dóm kjósenda og ég hef gert það allmörgum sinnum eins og kunnugt er og það hefur bara gengið nokkuð vel satt best að segja og hér er ég enn.

Við töluðum að sjálfsögðu fyrir og út frá okkar stefnu í Evrópumálunum (VigH: Þetta er ekki ykkar stefna.) í aðdraganda kosninga. En við sögðum jafnframt að við hefðum mikinn hug á því að halda stjórnarsamstarfinu áfram og gera það að meirihlutaríkisstjórn sem var minnihlutastjórn í vetur og það tókst. (VigH: Þetta er minnihlutastjórn.) Það var öllum ljóst að þar á meðal mundi það kalla á að menn fyndu einhvern farveg fyrir þetta erfiða mál.