137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hvers vegna í ósköpunum ætlar hæstv. fjármálaráðherra að sækja um aðild ef hann ætlar ekki ganga inn? Hvers vegna í ósköpunum ætla þeir þingmenn að sækja um aðild að Evrópusambandinu sem ekki ætla að ganga inn? Hvað halda menn að Evrópusambandið haldi um það þegar það fær þessa ræðu þýdda? Hér kemur náungi og hann ætlar að sækja um en hann ætlar ekki að ganga inn. Er hann að hafa okkur að fíflum? (REÁ: Ríkisstjórnin.)

Enn vil ég spyrja. Ég er sáttur við þetta með það tímabundna og allt það en Evrópusambandið getur breytt öllum sínum reglum. Það er verið að tala um að þeir ætli að breyta fiskveiðireglunum núna. Þeir geta þá breytt þeim til baka eins og þeim dettur í hug og þá yrðum við að vera með af því að þá erum við orðin svo háð þeim.

Svo vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Er ekki ýmislegt annað að gera á Íslandi en að binda öll ráðuneyti og allt starfsfólk við það að sækja um Evrópusambandið næstu fjögur, fimm árin?