137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:57]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Eitt af því sem skiptir máli þegar menn fara að skoða þetta betur er meðal annars þetta: Verður komið útgönguákvæði í regluverk Evrópusambandsins ef til þess kæmi einhvern tíma að Ísland færi að huga að inngöngu þangað? Um það er fjallað í nefndaráliti meiri hlutans. Það skiptir máli. Ég er enginn sérstakur aðdáandi Lissabon-samningsins og margt er í honum sem mætti vera öðruvísi mín vegna og hann er auðvitað hluti af samrunaþróuninni og öllu þessu. En það væri þó til bóta ef það ákvæði hans væri orðið að veruleika að menn ættu þarna útgengt með einhverjum eðlilegum hætti þannig að það skiptir vissulega máli.