137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:58]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra ágæta og yfirgripsmikla ræðu. Margt bar á góma. Ég vil nota þetta tækifæri til að spyrja hæstv. ráðherra eftirfarandi spurningar. Ég hjó eftir því að hæstv. ráðherra nefndi að engin ríkisstjórn kæmi til baka hér með samning sem gengi gegn grundvallarhagsmunum þjóðarinnar í sjávarútvegsmálum. Gott og vel. Þá kemur þessi spurning: Hver leggur á það mat, hvaða aðili innan stjórnsýslunnar ákveður eftir að samningar hefjast og það kemur í ljós að við erum ekki að ná þeim samningsmarkmiðum sem sett eru fram, að skorið verði á og samningurinn verði þá ekki borinn undir þjóðina? Eða er það möguleiki að gerður verði samningur og hann kláraður, borinn upp fyrir þjóðina, samningur sem hluti ríkisstjórnarinnar eða jafnvel öll ríkisstjórnin er sannfærð um að sé ekki í samræmi við hagsmuni Íslands? Hvar og hvenær verður slík ákvörðun tekin? Ég held að þetta skipti töluvert miklu máli.