137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[18:28]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni og formanni nefndarinnar að efnisatriði þau sem við höfum talað um eru í þessari greinargerð. En akkúrat í hans síðustu orðum kemur þessi meiningarmunur fram að við eigum, að okkar mati eða að mínu mati, að vera með fyrir fram mótuð skilyrði á hlutum sem við viljum bara alls ekki gefa eftir og það í rauninni samræmist á vissan hátt orðum hæstv. fjármálaráðherra áðan þegar hann talaði um sjávarútveginn, þ.e. ef það væri ljóst að sjávarútvegurinn þyrfti að gefa eftir þá mundum við bara slíta samningaviðræðum og allt væri búið. Ef við eru með þessa fyrirvara þegar við förum, þessi skilyrði alveg klár, þá mun þetta styðja skoðun ráðherrans. Það er alveg ljóst. Það mun styðja það og hjálpa til við að hverfa út úr þeim samningum sem teljast vondir.