137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[18:34]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er mjög athyglisvert. Mér sýnist að allir íslenskir stjórnmálamenn eigi við það að glíma að það er umræða um Evrópusamband nema í Samfylkingunni. Þar er engin umræða og hefur ekki verið í fjögur ár af því að þeir eru búnir að finna sannleikann og þeir trúa. Það eru trúarbrögð en ekki umræða og hvorki um kosti né galla. Þar eru bara kostir.

Hv. þingmaður lýsir því að hann fékk í gegn ákveðna tillögu sem í mínum huga gengur út á það að Evrópusambandið gangi í Ísland en ekki öfugt, sem sagt að Evrópusambandið uppfylli okkar skilyrði. Ég hef enga trú á að það gerist. Spurning mín til hv. þingmanns er eftirfarandi: Segjum að öll þau skilyrði yrðu uppfyllt sem hann hefur barist fyrir og lagt til, mundi hann þá ganga í Evrópusambandið og greiða því atkvæði? Og hvernig sér hann Ísland þá eftir 60 eða 100 ár í Evrópusambandinu?