137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[18:36]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil andmæla harðlega því sem hv. þingmaður sagði um landbúnaðinn því að í þessu vandaða og vel skrifaða áliti er að finna einhvern þann besta kafla um landbúnaðar- og byggðamál sem ég hef lesið í úttektum um Evrópusambandið. Þar er tekið sérstaklega á landbúnaði og byggðum. Það er til dæmis eitt af skilyrðum fyrir stuðningi mínum við aðild og inngöngu í Evrópusambandið að það takist að verja og helst styrkja stöðu landbúnaðar og byggða landsins. Hérna er sérstaklega fjallað um fordæmið sem Finnar náðu, möguleikana á því að landið allt verði skilgreint sem norðurslóðalandbúnaður og ýmislegt annað er tínt til til þess að verja landbúnaðinn, fæðuöryggið, byggðirnar. Ég held og trúi því, þangað til annað kemur í ljós, að í aðild geti falist mikil sóknarfæri fyrir byggðir Íslands. Auðvitað verðum við að verja ýmislegt í aðildarviðræðunum sem snýr að landbúnaðinum, sérstaklega því sem snýr að framleiðslu á hvítu kjöti og einhverjum öðrum þáttum. En því vil ég mótmæla harðlega að landbúnaðinum sé í þessu áliti fórnað því utan um hann er sérstaklega (Forseti hringir.) vel haldið og það er einmitt sérstakt ánægjuefni.