137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[18:40]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem nú aðeins til að lýsa aðdáun minni á spretthörku hv. þingmanns í túlkunarfræðum. Í ályktun um aðildarviðræður við Evrópusambandið frá Framsóknarflokknum segir, með leyfi forseta:

„Að Ísland hefji aðildarviðræður við Evrópusambandið á grundvelli samningsumboðs frá Alþingi ...“

Þetta túlkar hv. þingmaður sem svo að þetta séu bara einhverjar saklausar viðræður. En túlkunarfræðin leyfir það ekki. Aðildarviðræður hljóta að fela í sér viðræður um aðild (Gripið fram í.) og samningsumboð hlýtur að fela í sér umboð til samninga sem er þá um aðildina sem viðræðurnar snerust um. Ég skil ekki hvernig hv. þingmaður getur komist að annarri niðurstöðu. En ég ætla ekki að spyrja hann út í það. Ég ætla bara að njóta þessarar túlkunarfræði.

Það sem ég ætlaði að spyrja hv. þingmann um er afstaða hans til bindandi eða ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Er það virkilega þannig að ef þjóðin tæki ákveðna afstöðu í jafnstóru máli í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu að þá mundi hann fara gegn því á Alþingi Íslendinga?