137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[18:50]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er engum leyndarhjúpi hulið hvernig eigi að haga þingstörfum eins og menn sögðu áðan. Það var rætt í dag á fundi þingflokksformanna og forseta þar sem forseti greindi frá því að fundað yrði hér fram að miðnætti í kvöld og á morgun. Ástæðan er sú að dagarnir eru dýrmætir og vilji þingsins stendur til þess að gefa þessu stóra máli, kannski stærsta máli síðari tíma, eins mikið svigrúm í þinginu og hugsast getur, morgundaginn, mánudaginn, þriðjudaginn, miðvikudaginn, allt eftir því hvernig sem umræðunni vindur hérna fram. Hún á ekki að takmarkast við nokkurn skapaðan hlut annan en þann að þingmenn ræði það algerlega út og til hlítar. Eins og allir vita geta menn farið hér upp eins oft og þeir vilja þannig að umræður eiga sjálfsagt eftir að standa lengi. Þess vegna var ákveðið að funda á morgun. En sú ráðstöfun lá fyrir í dag klukkan fjögur. Það var rætt á fundi formanna þingflokka og forseta þannig að fyrir menn sem voru að spyrja eftir því áðan hvað ætti að gera í kvöld og á morgun þá liggur það alveg skýrt fyrir og lá fyrir í dag.