137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[18:52]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að við samþykktum að vera hér fram eftir kvöldi. Enginn gerir athugasemd við það. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson sem nú víkur úr salnum kom hér og sagði: „Það er enginn leyndarhjúpur. Þetta var ákveðið á fundi þingflokksformanna klukkan fjögur.“ Nei, það er svo sannarlega enginn leyndarhjúpur, virðulegi forseti, vegna þess að þetta var í útvarpinu klukkan tvö, í útvarpinu klukkan tvö áður en hið málamyndasýnishornasamráð við stjórnarandstöðuna um skipulag þingsins er sett á svið. Það er fundað klukkan fjögur en þetta er í útvarpinu klukkan tvö. Svo er ekki fundað í forsætisnefnd sem þó formlega á að taka þessar ákvarðanir. Við mótmælum því að slík vinnubrögð séu viðhöfð, virðulegi forseti. En það er bara annar hluti málsins. Hinn hluti málsins er sá að eins og hefur verið bent á hér er engin ástæða til að þröngva þinginu, þingmönnum bæði og starfsmönnum þingsins, til að standa hér á laugardegi um hásumar þegar (Forseti hringir.) fólk hefur skyldur gagnvart sínum fjölskyldum og gagnvart sínum (Forseti hringir.) kjördæmum til að ræða mál sem við getum rætt fram í október (Forseti hringir.) þess vegna.