137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[18:57]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég ætla að láta þessi síðustu ummæli hæstv. forseta fram hjá mér fara og læt sem þau hafi ekki verið sögð. Ég heyrði ekki betur en forseti væri að blanda sér í umræður með einhverjum hætti. En látum það vera. Þetta er allt hið einkennilegasta mál.

Fyrir liggur að af einhverjum ástæðum er lagt ofurkapp á að flýta umræðunni um þetta tiltekna mál. En það hefur ekki verið upplýst í þinginu með viðhlítandi hætti hvers vegna svo er. Hins vegar get ég getið þess þingmönnum til upplýsingar að í útvarpsfréttum núna klukkan sex upplýsti hæstv. forsætisráðherra um það hvers vegna liggi á. Hæstv. forsætisráðherra sagði nefnilega í viðtali við fréttamann Ríkisútvarpsins að Samfylkingin legði mikið kapp á að koma umsókn út þannig að hægt væri að taka hana fyrir á ráðherrafundi 27. júlí. (Gripið fram í.) Samfylkingin, hæstv. forsætisráðherra sagði Samfylkingin, (Forseti hringir.) ekki stjórnarflokkarnir, ekki ríkisstjórnin, Samfylkingin. (Forseti hringir.) Þetta eru skilaboð til Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.