137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[20:02]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við sáum hina mjúkmálu útgáfu af hæstv. utanríkisráðherra og var vandséð eftir að hafa hlýtt á ræðu hans hvers vegna við værum yfir höfuð að ræða þetta mál. Þetta var silkipúða- og bómullarútgáfan, en ég ætla ekki að fara í deilur við hæstv. utanríkisráðherra um efnisatriði. Við komum áreiðanlega að því síðar í umræðunni. Það eru ákveðin atriði sem ég vildi reyna að glöggva mig á. Hæstv. ráðherra er skákmaður og ræddi um endatafl. Við þurfum að hugsa um endataflið, en við þurfum líka aðeins að átta okkur á miðtaflinu.

Ég velti fyrir mér hvað ráðherra var margmáll um skilyrði sem eru fólgin í nefndaráliti, binda þannig hendur samningamanna Íslands og þar af leiðandi hæstv. ráðherra. Ég velti fyrir mér hvernig við verður brugðist ef sú staða kemur upp að menn sjá fram á það í samningaviðræðum miðjum að þessi skilyrði verði ekki uppfyllt. (Forseti hringir.) Hvernig mundi þá hæstv. utanríkisráðherra bregðast við sem forustumaður af hálfu ríkisvaldsins (Forseti hringir.) í þessum viðræðum?