137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[20:08]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að ég hafi aldrei logið, hvorki að hv. þingmanni né nokkrum framsóknarmanni á allri minni lífsfæddri ævi þannig að það er óþarfi fyrir hv. þingmann að taka það sérstaklega fram að ég hafi sagt satt núna.

Út af þessari ályktun sem hv. þingmaður er viðkvæmur fyrir að sé túlkuð með þeim hætti sem ég hef gert kemur tvennt til sem veldur túlkun minni. Í fyrsta lagi segir alveg skýrt þegar búið er að taka saman öll þessi skilyrði í ályktun Framsóknarflokksins að þetta séu samningsmarkmið og þau verði lögð til grundvallar. Það þýðir samkvæmt hefðbundnu íslensku máli að þetta er það sem menn eiga að nota í samningum. Þetta á að vera grundvöllurinn en þetta er ekki óhagganlegt, þetta er ekki meitlað í stein. Ég þarf þar að auki ekki að túlka þetta neitt fyrir hv. þingmann. Aðrir góðir framsóknarmenn, og handgengnari honum en ég, hafa túlkað þetta með nákvæmlega sama hætti, tveir hér í dag. Það er helmingurinn af þeim sem hafa talað í dag af (Forseti hringir.) hálfu Framsóknarflokksins.