137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[20:27]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal spurði hvort ég vildi fara í Evrópusambandið. Ég tel ekki rétt að upplýsa um þá skoðun mína vegna þess að ég mun þegar niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar liggur fyrir beygja mig undir þá niðurstöðu hvort sem það verður að Ísland fari inn í Evrópusambandið eða standi fyrir utan.

Hvað varðar kosti þess að ganga í Evrópusambandið þá byggi ég listann á meðal annars úttekt Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Þar kom fram að vöruverð lækkar yfirleitt þegar lönd ganga í Evrópusambandið, meðal annars vegna þess að um er að ræða meiri innflutning frá löndum Evrópusambandsins til þeirra landa sem hafa gengið inn.

Hvað varðar afstöðu mína um hvort hagstætt sé að ganga í Evrópusambandið eða alla vega að hefja samningaviðræður við ESB um upptöku evrunnar þá lít ég svo á að upptaka evrunnar sé bara einn möguleiki af mörgum og að tímabært sé að kanna hvort það sé raunhæfur möguleiki á þessari stundu. Ég tel að með því að setja þetta atriði í forgang þá muni niðurstaða fást fljótlega eða með haustinu og ef hún er neikvæð tel ég að ríkisstjórnin eigi að kanna aðra möguleika hvað varðar upptöku annars gjaldmiðils.