137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[22:06]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er það sem er að í þessu máli, þ.e. að ekki sé heimild í stjórnarskránni til að fara út með þennan samning því það er ekkert fullveldisafsalsákvæði í stjórnarskránni. Ég hef margbent á þetta. Ég hef margbent á þetta í blaðagreinum og ég skrifaði fyrir kosningar og ég skrifaði eftir kosningar um þetta. En það er gott að nú er ég að fá hér hljómgrunn.

Varðandi breytingarnar sem stóðu til hér fyrir síðustu kosningar á 79. gr. stjórnarskrárinnar þá er ég ekkert voðalega hrifin af því að slaka eitthvað á því að stjórnarskrárgjafinn eigi að gefa eftir. Stjórnarskráin er til þess að vernda réttindi þegnanna í hverju ríki fyrir sig sem hefur stjórnarskrá í lýðræðisríkjum. Stjórnarskrárgjafinn er þannig, eins og ég lýsti áðan, að það þarf samþykki tveggja þinga með kosningar á milli. Það að breyta stjórnarskránni á að vera erfitt því að stjórnarskráin er til að vernda þennan rétt. Við viljum ekki sitja uppi með að hér á landi verði ríkjandi stjórnvöld sem geti tekið þennan rétt af fólki með einfaldri lagasetningu. Við höfum dæmi úti í Evrópu um brjálaða einræðisherra og annað. Stjórnarskránni á að vera erfitt að breyta. (Gripið fram í.) Já, hafa þröskuld og henni á að vera erfitt að breyta. En þá komum við aftur að hinu að það er að mínu mati stjórnskipunarbrot að fara af stað með þetta með þessum hætti. Norðurlöndin hafa þessi ákvæði í stjórnarskránni, ekki Ísland. En það er litið fram hjá þessu eins og svo mörgu öðru á Íslandi í dag undir stjórn þessarar ríkisstjórnar, undir stjórn Samfylkingarinnar sem er búin að vera aðili að þremur ríkisstjórnum. Það er alltaf verið að tala um að þeir sem ríktu áður hefðu verið svo slæmir.

Frú forseti. Hér er verið að brjóta stjórnarskrána. Ég er að segja ykkur það. En það er litið fram hjá því.