137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[22:49]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki einu sinni samhljómur um þau skilyrði sem við ætlum að setja vegna þess að margir hv. þingmenn og ráðherrar, hæstv. fjármálaráðherra, vilja bara ekkert ganga í Evrópusambandið sama hvað í boði sé og þar á meðal er ég. Ég ætla að biðja hv. þingmann að segja ekki að það hafi verið þessi samhljómur í minni ræðu í dag. Ég er búinn að halda margar ræður, mörg andsvör og það er sko alls ekki samhljómur með því að ég fallist á skilyrðin fyrir því að ganga í Evrópusambandið. Ég vil ekkert ganga í Evrópusambandið þó að öll skilyrði yrðu uppfyllt. Það er mjög einfalt. Það er mjög einfalt og ég ætla að vona að það skiljist að það er ekki samhljómur með minni ræðu og ræðu hv. þingmanns.

Síðan kem ég að stjórnarskránni því að 23. janúar 2001 var Alþingi að ræða um örorkudóminn og þá segir hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir, með leyfi frú forseta:

„Hið góða við þær rökræður sem hér hafa farið fram er að við hv. þm. höfum þurft að takast á við grundvallarspurningar um mannréttindi, um stjórnarskrána og um löggjöf sem samræmist stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.“

Svo áfram, með leyfi frú forseta:

„Það er ljóst að það gengur ekki að fara með fleipur þegar um er að ræða grundvallaratriði er varðar stjórnarskrá lýðveldisins.“

En hér er hv. þingmaður að segja: „Við erum að sækja um. Það er pólitík. Það er ekki lögfræði. Það hefur ekkert að gera með stjórnarskrána.“ Við erum að ákveða að fela ríkisstjórninni, hæstv. utanríkisráðherra — sem að sjálfsögðu er ekki viðstaddur — fela honum að sækja um. Hann má það ekki samkvæmt stjórnarskránni sem hv. þingmaður talar svo fagurlega um árið 2001. En það er víst einhver allt annar maður eða kona sem sagði það og búin að upplifa margt síðan og stjórnarskráin gildir ekki eins mikið.