137. löggjafarþing — 39. fundur,  11. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:58]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Nokkur atriði, frú forseti, vildi ég gera hér að umræðuefni. Í fyrsta lagi tel ég að þingmaðurinn hafi tekið heldur ónákvæmt til orða um afstöðu mína til ESB og sameiginlegu sjávarútvegsstefnuna og tengsl Íslands við það hugsanlega í framtíðinni. Í öðru lagi er ég honum algjörlega sammála um að menn eigi að gæta að því að búa ekki til óraunhæfar væntingar til dæmis um afleiðingar evrunnar. Í þriðja lagi finnst mér sem innan í hjarta þingmannsins ómi nú ákveðinn óður til gleðinnar. Ég kemst ekki að annarri niðurstöðu eftir að hafa hlustað á hann.

Mig langar aðeins að fara yfir það sem hv. þingmaður hefur sagt um evruna núna og áður. Hann hefur lengi verið þeirrar skoðunar að við þurfum að skipta um gjaldmiðil. Hann sagði hér í ræðu sinni í upphafi að hann teldi að í stöðunni væri það kannski besti kosturinn ef hægt væri að taka upp evruna. Hann sagði hins vegar að það væri alls ekki hægt að taka hana upp einhliða, meðal annars vegna afstöðu og andstöðu Evrópska seðlabankans. Hann komst að þeirri niðurstöðu undir miðbik sinnar ræðu að það sem þyrfti að gerast væri að það yrði látið reyna á aðild að ESB og síðan þyrfti þjóðin að taka afstöðu til þess, hugsanlega með þeim umbúnaði sem kemur fram í breytingartillögum þeirra. En svo sagði hann að hann hefði mjög miklar efasemdir um að þjóðin samþykkti samninginn. Hann taldi sem sagt að hann yrði felldur og þá þyrfti að skoða aðra kosti eins og til dæmis dollarann, sagði hann.

Ef þetta er svona, ef hann telur nú þegar, jafnvel þrátt fyrir þær breytingartillögur sem hann hefur sett fram, að þjóðin muni ekki samþykkja samning að Evrópusambandinu þá spyr ég hv. þingmann, af því að hann er lógískur og greindur ungur maður á uppleið: Af hverju leggur hann þá bara ekki til að Íslendingar taki upp dollarann? Það er hin eina lógíska niðurstaða af ræðu hv. þingmanns. Ég spyr hann: Af hverju sveipaði hann þá niðurstöðu öllum þessum umbúnaði? En þetta var kjarninn í því sem hann var að segja ef ég reyni bara að greina það svona út frá þeirri sömu rökræðu og hann beitti í sinni ræðu.