137. löggjafarþing — 39. fundur,  11. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:15]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að endurtaka þakkir mínar til hv. utanríkismálanefndar fyrir hennar yfirferð yfir málið. Ég sat sem varamaður í nefndinni einn eða tvo fundi og fylgdist með því hve vel var á málum haldið frá upphafi til enda. Það hefur gengið sem rauður þráður í gegnum umræðurnar í dag og í gær að þingheimur almennt er mjög sáttur við þá vinnu sem fór fram í nefndinni um þetta umfangsmikla, flókna og erfiða mál. Það er ekkert sjálfgefið að það takist að halda jafnvel utan um málið í þingnefnd þegar málið er jafnumdeilt og umfangsmikið og þetta mál svo sannarlega er og eiga formaður og varaformaður nefndarinnar að sjálfsögðu sérstakar þakkir skildar fyrir það.

Þingmenn hafa í ræðutíma sínum að sjálfsögðu fjallað um ýmis atriði máls allt frá formi og tæknilegum atriðum til efnisinnihalds málsins. Ég ætla að staldra við einn þátt sem mér er sérstaklega hugleikinn og snýr að landbúnaðar- og byggðamálum af því að þó að kostirnir við hugsanlega aðild séu augljóslega ýmsir þá þarf að sjálfsögðu að gæta að mörgu og felast í ákveðnar ógnanir við stöðu núverandi mála. Þar á ég sérstaklega við landbúnaðarmálin. Forusta Bændasamtakanna og, held ég megi segja, þorri starfandi bænda í landinu, alla vega mjög margir — og þekki ég þá marga og er í ágætum reglulegum samskiptum við mikinn fjölda bænda þar sem ég bý að hluta til í dreifbýlinu, í sveitinni — þar eru miklar efasemdir um aðild þó því fari svo fjarri að allir bændur séu á móti aðildarumsókn eða hugsanlegri aðild heldur hafa þeir efasemdir út af stöðu sinnar greinar. Þær efasemdir eru fullkomlega réttmætar. Því var það ánægjuefni að í því nefndaráliti sem við ræðum í dag er sérstaklega vel tekið utan um og fjallað um landbúnaðarmálin annars vegar og byggðamálin hins vegar. Í mörgum úttektum sem fram hafa farið á kostum og göllum aðildar og aðildarumsóknar að Evrópusambandinu hafa menn oft farið býsna hratt yfir þessa þætti og ekki farið ígrundað eða djúpt í þá. En hér er það gert með miklum ágætum og segir í álitinu að af þeim umsögnum sem bárust nefndinni megi ráða augljóslega að það eru verulegar áhyggjur meðal forsvarsmanna í landbúnaðinum um áhrif aðildar ESB á íslenskan landbúnað. Þess vegna þurfum við að taka heiðarlega og vandaða umræðu um það hvaða kostir annars vegar og hvaða gallar hins vegar felist í aðild að Evrópusambandinu fyrir íslenskan landbúnað.

Auðvitað má nefna einn höfuðkost hugsanlega fyrir þá grein eins og alla aðra atvinnustarfsemi í landinu, þ.e. stöðugur gjaldmiðill, lægra vaxtastig og stöðugleiki í efnahagslegu umhverfi. Það má að sjálfsögðu draga það strax fram sem kost fyrir landbúnað rétt eins og alla aðra atvinnustarfsemi af því að auðvitað er landbúnaðurinn fyrst og fremst öflug atvinnugrein í okkar landi þó hún sé um leið alveg gífurlega mikilvæg atvinnugrein. Þetta er sú atvinnugrein sem stendur undir byggðum landsins. Án öflugs landbúnaðar væru sveitir landsins meira og minna mannlausar. Þetta er sú grein sem tryggir okkur að stærstum hluta fæðu og fæðuöryggi Íslendinga. Stuðningur minn við inngöngu í Evrópusambandið hefur alltaf verið skilyrtur við það að staða landbúnaðarins yrði varin til hins ýtrasta í samningaviðræðum og staða landbúnaðar og byggðanna mundi batna í heild sinni en ekki versna.

Auðvitað mun umgjörð landbúnaðar og stuðningsins breytast við inngöngu í ESB. Þess vegna þótti mér sérstaklega athyglisvert að lesa álitið og ætla ég að fjalla aðeins um þennan kafla og, eins og ég sagði, nota tíma minn í þetta skiptið, í fyrstu ræðu minni við þessa 2. umræðu um tillöguna til að fjalla um landbúnaðar- og byggðamálin. Við höfum haft tilhneigingu til þess á liðnum árum, og það er ekkert undarlegt við það, að fjalla mest um gjaldmiðilsmálin Hv. þm. Illugi Gunnarsson fór alveg prýðilega yfir það. Auðvitað hafa umræðurnar um það áreiðanlega kveikt hjá einhverjum óraunhæfar væntingar en öðrum ekki. En hið augljósa blasir við að þorri Íslendinga vill leita leiða til að efla stöðugleika í samfélaginu. Meðan við búum við lítinn gjaldmiðil sem er auðvelt fyrir einstaka spákaupmenn innlenda og erlenda að taka niður með stöðutöku þá er það að sjálfsögðu tilræði við fullveldi Íslendinga þegar því er svo fyrir komið. Það sem nú er áætlað að leita þessara leiða, að sækja um aðild að Evrópusambandinu, ganga til viðræðnanna og leggja samninginn fyrir þjóðina, er að sjálfsögðu fyrst og fremst viðleitni, pólitísk vegferð til að efla, varðveita og að mörgu leyti endurheimta efnahagslegt fullveldi þjóðarinnar sem við höfum lent í miklum erfiðleikum með í þeim fjármálahamförum sem núna ríða yfir heiminn og sérstaklega yfir okkur meðal annars út af því að við erum fámenn þjóð, 300 þúsund manns sem reynist að sjálfsögðu erfitt að verja lítinn sjálfstæðan fljótandi, sem var þá, gjaldmiðil þegar slík ósköp ganga yfir og þegar óprúttnir aðilar taka stöðu gagnvart gjaldmiðlinum og leika sér þannig með hann og gera hann að leiksoppi óforsvaranlegrar framkomu og hegðunar.

Þetta er einn angi málsins og um hann hefur verið fjallað mikið, reyndar mest. Þetta er drifkraftur umræðunnar, þ.e. það sem menn kölluðu hlutfallsvanda á milli atvinnulífs, fjármálakerfis annars vegar alþjóðlegs og hins vegar gjaldmiðils og myntsvæðis. Það að komast í skjól á stóru myntsvæði með ýmsum kostum eins og lægri vöxtum, afnámi verðtryggingar og stöðugleika er að sjálfsögðu nokkuð sem þorri landsmanna vill skoða. En hitt er alveg rétt að í því felast líka ágallar eins og þingmaðurinn nefndi áðan, formaður þingflokks sjálfstæðismanna, að það geti verið kostur fyrir útflutninginn að gengi sé á tímabilum lágt og þar með innkoman meiri og svo framvegis. Það eru kostir og gallar við þetta allt saman. Ég ætla að fjalla um byggðamálin og landbúnaðinn að meginhluta.

Eins og ég nefndi áðan hafa ýmsir forustumenn í landbúnaði verulegar áhyggjur af hugsanlegri aðild að Evrópusambandinu. Þau sjónarmið ná að sjálfsögðu langt út fyrir þá sem starfa við landbúnað af því að stuðningur við íslenskan landbúnað nær langt út fyrir þá sem byggja sveitirnar eða starfa í greininni. Stuðningur við íslenskan landbúnað og hina dreifðu byggð Íslendinga er mjög almennur á Íslandi sem betur fer og verður vonandi lengi áfram. Við eigum að gera allt sem við getum til að efla stöðu byggðanna, standa vörð um íslenskan landbúnað, efla stöðu hans og styrkja. Þess vegna tel ég að með aðild geti falist ýmisleg sóknarfæri fyrir byggðirnar dreifðu og landbúnaðinn, nýsköpun í dreifbýli, möguleikar sem gætu verið miklu fleiri en hafa komið fram í umræðunni. En um leið verðum við að sjálfsögðu að átta okkur á því hvaða ágjafir gengju yfir með lægri tollum og minni framleiðslutengdum stuðningi.

Öflugur íslenskur landbúnaður skiptir okkur gífurlega miklu máli og er snar þáttur í mótun byggðar í landinu, eins og segir í álitinu, og hefur ekki bara hlutverki heldur mjög ríku hlutverki að gegna til framtíðar þegar kemur að veigamiklum þáttum í umhverfismálum, skógrækt, landgræðslu, endurheimt votlendis, landbúnaðarlandslagi, menningu og ferðaþjónustu fyrir landið allt. Landbúnaðurinn gegnir að sjálfsögðu því meginhlutverki fyrir dreifðar byggðir Íslands að auk þess að vera hluti af menningu og lífsafkomu þjóðarinnar þá tengist að sjálfsögðu fjöldi afleiddra starfa landbúnaði beint og óbeint og heilu þorpin, bæirnir úti um allt Ísland byggja tilveru sína á þjónustu við landbúnaðinn beint eða óbeint. Þess vegna þurfum við að taka þennan þátt í umræðunni sérstaklega fyrir, þ.e. hvernig ætlum við, kæmi til aðildar, að verja stöðu byggða og landbúnaðar?

Meiri hlutinn í nefndinni leggur í nefndaráliti sínu áherslu á að skýr stuðningur við mjólkurframleiðslu og annan hefðbundinn búskap verði eitt af meginsamningsmarkmiðum Íslands. Það er algert grundvallaratriði að það verði eitt af skilyrðunum og samningsmarkmiðunum að tryggja grunnstuðninginn áfram. Það á til dæmis við um afnám tolla eins og segir í álitinu þar sem tollverndin hefur verið ein af stoðum íslensks landbúnaðar ekki síst hefðbundins landbúnaðar og þess vegna er mikilvægt að leita leiða til að búa svo um að stuðningi við landbúnaðinn verði sem allra minnst raskað af því að við gerum okkur að sjálfsögðu grein fyrir því að það kemur til breytinga á stuðningnum. Samningsmarkmiðin og samningsferlið felst í því að semja um það hvernig stuðningnum verði háttað og hvernig raskið verði sem minnst fyrir greinina, með hvaða hætti við getum eflt hana við þessar breytingar af því að ég held að í þessum breytingum og þessu breytingaferli felist gífurleg tækifæri fyrir íslenska landsbyggð í nýsköpun og uppbyggingu nýrra atvinnutækifæra og nýrra atvinnuhátta.

Þróun landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins hefur verið með þeim hætti að eiginleg framleiðslustýring hefur verið lögð af í formi kvótasetningar og mjólkurkvóti verður, segir í álitinu, afnuminn frá 2013. Því er ekki lengur um að ræða, eins og ég nefndi áðan, framleiðslutengda styrki til bænda eins og við þekkjum í hluta af okkar landbúnaðarumhverfi þegar kemur að framleiðslu á sauðfé og mjólk þar sem styrkirnir eru framleiðslutengdir. Þess í stað er bændum tryggð ákveðin lágmarksafkoma í formi beingreiðslna sem er byggð á sögulegri framleiðslu. Það er að mörgu leyti mjög skynsamleg þróun í stuðningi að styðja við afkomu bænda með þeim hætti þar sem bændur geta ráðstafað fjármagninu meira eftir hentugleikum en framleiðslutengingunni einni saman. Síðan er gefið ákveðið svigrúm fyrir framleiðslutengda styrki norðan 62. breiddargráðu eins og komið er að í álitinu sérstaklega og vísað er í sem fordæmis Finna. Það er mjög mikilvægt fordæmi og gefur landbúnaðinum okkar íslenska ekki bara svigrúm til aðlögunar heldur bendir til hvaða sérstöðu Íslendingar gætu notið við aðildarumsókn og inngöngu í Evrópusambandið. Fordæmi þau sem sköpuð hafa verið í aðildarsamningum ríkja eins og Finnlands munu án efa verða mikill styrkur fyrir Ísland þar sem ástæða er til að ætla að meðal annars verði unnt að skilgreina allt landið sem norðurslóðalandbúnað. Það er gífurlega mikilvægt atriði. Þar erum við ekki að tala um einhverjar óraunhæfar væntingar um varanlegar undanþágur eða neitt slíkt heldur skilgreiningu á landinu öllu sem harðbýlu svæði, norðurslóðalandbúnaði sem gæti skapað grundvöll til að styrkja íslenskan landbúnað til dæmis með framleiðslutengdum styrkjum umfram það sem almennar reglur Evrópusambandsins kveða á að það geri alla jafnan. Þetta er mjög mikilvægt atriði. Þetta eigum við að leggja mikla áherslu á ef Alþingi samþykkir það að sótt verði um aðild að Evrópusambandinu, þ.e. að standa þannig með öllum hugsanlegum ráðum vörð um stöðu íslensks landbúnaðar og það hvernig við getum skapað okkur stöðu til að styrkja okkar landbúnað áfram með framleiðslutengdum hætti umfram það sem almennt tíðkast innan Evrópusambandsins og það mundum við gera með þessum hætti, með skilgreiningu á norðurslóðalandbúnaði og landinu sem harðbýlu svæði. Þetta eru fordæmi sem Finnarnir og innganga Finna í sambandið á tíunda áratugnum gefa okkur til kynna að Íslendingar geti fengið. Þess vegna er það eitt af samningsmarkmiðum okkar sérstaklega að fara þessa leið.

Ýmislegt annað má nefna sem skiptir miklu máli fyrir íslenskan landbúnað. Við þurfum að taka sérstaklega utan um landbúnaðinn og það er skilyrði fyrir stuðningi margra hér við inngöngu — þó við styðjum það að sótt verði um aðild núna — það er að landbúnaðurinn verði varinn og hann komi sterkari út úr ferlinu sem grein í heild sinni og byggðir landsins almennt komi sterkari út úr þessu. Ég tel að það felist mikil sóknarfæri fyrir byggðirnar í aðild að Evrópusambandinu. Það kemur að sjálfsögðu í ljós þegar samningurinn liggur fyrir og við þurfum að gæta sérstaklega að því.

Í umfjöllun utanríkismálanefndar kom skýrt fram eins og kemur fram í álitinu hversu tengd byggðamálin eru við landbúnað innan ESB. Þeir nátengja málin, eins og ég gat um áðan, með því að leggja af framleiðslutengda styrki og taka upp byggðatengda styrki í staðinn sem eru vissulega byggðir á sögulegri framleiðslu. Innan ESB hefur verið dregið mjög úr beinum stuðningi og stuðningur hefur þess í stað verið aukinn hvað varðar byggðaþróun, umhverfisverkefni og aðra nýsköpun í dreifbýli sem er alveg sérstaklega jákvætt og reynsla margra þjóða af aðild að sambandinu, Íra, Finna og margra annarra, hefur verið sú að aðildin hefur gert þessum stóru og oft dreifbýlu löndum það kleift að byggja upp öflugt net fjarskipta, samgangna og ýmissa annarra innviða og grunnstoða sem gera þjóðinni kleift að efla byggðirnar allar mjög verulega. Þessi breyting getur fallið mjög vel að þróun íslenskrar byggðastefnu enda hafa margir sveitarstjórnarmenn og þeir sem fara með byggðamálin í okkar samfélagi, ekki síst sveitarstjórnendur úti um allt land, litið með jákvæðum hætti til inngöngu í Evrópusambandið út af byggðastefnu sambandsins sem um margt er til mikillar fyrirmyndar. Aðkoma hagsmunaaðila að styrkjakerfi ESB er að sjálfsögðu mikilvæg í byggðamálum eins og í landbúnaðarmálum og kemur það fram í mati meiri hlutans og líkast til er umfjöllun um landbúnaðarmál ekki síst tengd þessari nýsköpunarstefnu sambandsins í byggðamálum. Að sjálfsögðu er einboðið að sveitarfélögin munu gegna lykilhlutverki í viðræðum um byggðamál, enda verði hagsmunir sveitarfélaga og byggða aldrei aðgreindir og að mati meiri hlutans kemur hérna fram að það þurfi að tryggja byggða-, umhverfis-, atvinnu-, og nýsköpunarstuðning til dreifðra byggða.

Allt frá því að stækkunarferli sambandsins hófst í byrjun sjöunda áratugarins þegar Írar og margar aðrar þjóðir, Bretar, gengu inn hefur Evrópusambandið haft í forgrunni efnahagslega uppbyggingu á þeim svæðum aðildarríkjanna sem lakast standa efnahagslega enda er meginmarkmið sambandsins að tryggja annars vegar frið í álfunni og hins vegar hagsæld og velferð allra aðildarríkjanna. Þetta eru þau tvö meginmarkmið — af því að formaður Sjálfstæðisflokksins nefndi það í gær að menn verðu ekki nægjanlega miklum tíma í að ræða grundvallarhugsjónirnar á bak við Evrópusambandið þá þarf að draga það sérstaklega fram að kjarni sambandsins er, eins og frægt er, annars vegar að tryggja frið í álfunni á meðal hinna stóru þjóða og hins vegar að auka, varðveita og byggja upp hagsæld allra ríkja álfunnar, að hver þjóð hjálpi annarri til hagsældar og velferðar og þess vegna hefur byggðastefna sambandsins skipt svona miklu máli. Það er augljóst að sveitarfélögin munu gegna lykilhlutverki í viðræðunum um byggðamál, enda verða hagsmunir sveitarfélaganna og byggðanna mjög samofnir að þessu leyti.

Nú er gert ráð fyrir að á tímabilinu 2007–2013 verði varið alls 350 milljörðum evra til byggðamála. Stærsti hluti þess fjár rennur til nýrra ríkja í Austur-Evrópu sem komu nýlega inn í sambandið og lakast standa efnahagslega af þeim 27 löndum sem núna eru aðilar auk Spánar, Portúgals, Grikklands og Möltu sem fá talsvert ríkulega af þessum styrkjum. Auk þess eru verulegir fjármunir til ráðstöfunar í öðrum ríkjum ESB, segir í álitinu, á tilteknum forsendum sem meðal annars mundu ná til Íslands að óbreyttum reglum. En þrátt fyrir augljósa áherslu á dreifbýli vegna tenginga við landbúnað og sjávarútveg þá kemur fram í umfjölluninni um landbúnað í álitinu að full ástæða sé til að ætla — og það er fullyrt hér — að unnt verði að skilgreina landið sem harðbýlt svæði og landbúnaðinn sem norðurslóðalandbúnað. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli í þessu sambandi öllu og er algert grundvallaratriði í því meginmarkmiði okkar að verja og helst bæta stöðu íslensks landbúnaðar og byggðanna allra í heild sinni. Þess vegna leggur meiri hlutinn í áliti sínu áherslu á að byggðamál, styrkjakerfi og skilgreiningar landsvæða verði skoðuð heildstætt og skoðunin nái til landsins alls þar sem áhersla verði lögð á landfræðilega sérstöðu Íslands og breytta efnahagslega stöðu þjóðarinnar.

Fram undan er að sjálfsögðu hjá okkur endurmat á landbúnaðarstefnunni og hefur staðið yfir í mörg ár hvort sem okkur líkar það betur eða verr út af alþjóðlegum samningum. Skiptir þá hugsanleg aðild að Evrópusambandinu ekki máli í því sambandi. Landbúnaðarstefna Evrópusambandsins hefur verið löguð að fyrirhuguðum breytingum á hinu alþjóðlega viðskiptaumhverfi sem margir þingmenn sem hér eru í salnum nauðþekkja af starfi undanfarinna ára. Þar er stuðningurinn, eins og ég nefndi áðan, ekki lengur tengdur framleiðslu heldur er það sem kallast í þeirri vinnu grænir styrkir. Ég hef persónulega verið fylgismaður þess að við fetum okkur í átt frá framleiðslutengdum styrkjum í mörgum greinum til grænna styrkja sem næðu til fleiri greina. En hitt er ljóst að það er nauðsynlegt og jafnvel áríðandi að halda úti framleiðslutengdum styrkjum til tiltekinna greina landbúnaðarins til að breyta ekki þannig grundvelli þessara greina eftir áralangt og áratugalangt fyrirkomulag á þeim málum þannig að greinarnar lendi í miklum vanda. Innan þessa ramma gætu fallið auk hefðbundins landbúnaðar sem felast innan stefnu Evrópusambandsins ótal verkefni sem mundu skapa fjölmörg ný störf í sveitunum, umhverfisverkefni eins og ég nefndi áðan, endurheimt á votlendi, matvælaframleiðsla sem nýtir staðbundin hráefni svo dæmi séu nefnd þannig að í byggðastefnu/landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins geta falist mjög fjölbreytt og margvísleg ný atvinnutækifæri fyrir íslenskan landbúnað og þá sem byggja dreifbýlið sem breikka þannig mjög atvinnulíf og atvinnuhætti sveitanna sem að vissu leyti hafa verið nokkuð einhæfir og að sumu leyti verið að þróast í háskalegar áttir á undanförnum árum. Kúabúum hefur til dæmis fækkað gríðarlega og við stefnum í að vera með örfá mjög stór kúabú sem eru að framleiða 500 þúsund til milljón lítra af mjólk á ári. Gömlu 100–200 þúsund lítra fjölskyldubúin heyra sögunni til að mestu leyti. Þetta er þróun til stórra verksmiðjubúa sem við þurfum að líta sérstaklega til inni í þessu ferli öllu saman. Aðildarumsóknin að Evrópusambandinu gefur okkur tilefni til þess að endurskoða þetta. Sem betur fer er mjög almenn og breið samstaða um það á Íslandi að standa vörð um landbúnaðinn og styrkja mannlíf og atvinnulíf í sveitum þannig að það fái staðist og geti að sjálfsögðu orðið sjálfbært og öflugt og þurfi ekki á styrkjum og stuðningi að halda. En við þekkjum það eins og staðan er núna og hefur verið að þessar greinar eru byggðar á ákveðnum undirstöðum og hluti þeirra eru framleiðslutengdir styrkir og það er ekki hægt að svipta þær greinar þeim stuðningi fyrirvaralítið þannig að þær féllu á hliðina um leið.

Landbúnaðarstefna okkar er í dag að mörgu leyti einhæf og misskilvirk. Hún styður ekki þann fjölbreytta landbúnað sem er í landinu heldur einblínir á dilkakjöts- og mjólkurframleiðslu. Mér finnst svo mikið fagnaðarefni við byggðastefnu Evrópusambandsins hvað þar er einblínt á fjölbreytni og fólkinu sjálfu látið það eftir að velja sér með hvaða hætti það vill byggja sveitirnar og byggja þar upp dreifbýli og atvinnuhætti en er ekki stýrt inn í það að framleiða tilteknar vörur. En um leið er mikilvægt að standa vörð um framleiðslu á kjöti og mjólk af því að þar erum við líka að tala ekki bara um atvinnulíf í sveitum heldur einnig fæðuöryggi okkar Íslendinga.

Kvótakerfið í mjólk hefur verið mörgum bændum hér óhagfellt líka og óbreytt stefna leiðir til áframhaldandi þróunar, eins og ég nefndi áðan, sem felur í sér marga ókostir. Það kallar á færri íbúa, fleiri svæði auð í sveitunum þannig að dýrara verður að halda þar úti þjónustu og þar með verður dreifbýlið veikara. Gegn þessu þurfum við einmitt að vinna. Við þurfum að efla dreifbýlið með öllum tiltækum ráðum. Þess vegna ver ég ræðutíma mínum í dag í að tala um að við verðum að verja stöðuna eins og hún er í dag og sækja fram. Ég tel að í aðild geti falist mikil sóknarfæri fyrir byggðirnar. Það sjáum við þegar samningurinn kemur heim og þess vegna er svo mikilvægt að í þessu nefndaráliti er það gert eitt af okkar aðalsamningsmarkmiðum, eitt af okkar meginmálum í aðildarviðræðum við Evrópusambandið að verja og efla íslenskan landbúnað. Þeir sem til þessara hluta líta og lýsa yfir þungum áhyggjum, eins og bændaforustan gerir, af mögulegri aðild Íslands að Evrópusambandinu og þeirri stefnumörkun stjórnvalda að sótt verði um ef þingið samþykkir — við þurfum að tala til þessa fólks. Við þurfum að sannfæra það um að við svo sannarlega hlustum á raddir þeirra, tökum áhyggjur þeirra mjög alvarlega og munum ekki láta þau sjónarmið, hagsmuni landsbyggðar, dreifbýlis og landbúnaðar verða afskipt í aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Það er eitt af okkar meginmarkmiðum að ná því fram að landbúnaðurinn standi betur en ekki verr og þar með dreifbýlið allt. Það er ekki lögmál að landbúnaðurinn þurfi að gefa eftir við inngöngu í Evrópusambandið. En það er hins vegar hætta á því ef við gætum ekki að því í samningsviðræðunum öllum. Þess vegna þurfum við að leggja á það áherslu sérstaklega þannig að það verði klappað í grjót að staða hans verði varin eins og efni standa til.

Valkosturinn er að sjálfsögðu að þróa okkar kerfi í aðrar áttir og það verður alltaf nokkuð brött brekka af því að eins og ég nefndi áðan eru fyrirsjáanlegar breytingar á fyrirkomulagi okkar algjörlega óháð aðild að Evrópusambandinu og það veit forusta Bændasamtakanna mætavel og auðvitað eru menn þar að reyna að búa sig undir breytta tíma. En ný og framsækin landbúnaðarstefna gefur okkur færi á að styðja betur við vaxtarsprotana í atvinnulífi á landsbyggðinni og þeir eru fjölmargir. Það veit enginn betur en fyrrverandi ráðherra ferðamála sem hérna situr núna sem hæstv. utanríkisráðherra að þar eru vaxtarsprotarnir gífurlega margir og mikið af góðum og glæsilegum hlutum að gerast á landsbyggðinni. Það er auðvelt að rækta sprotana þannig að þeir fái rótum skotið og dafni vel. En það þarf hins vegar að gera með pólitískum hætti. Það er verið að gera það og það þarf að gera það miklu betur af því að það eru ekki bara hagsmunir núverandi bænda að skilgreina þessa hluti upp á nýtt heldur hagsmunir okkar allra. Sannarlega eru það hagsmunir ferðaþjónustubænda, hrossabænda og margra annarra búgreina sem njóta einskis stuðnings frá hinu opinbera, hvorki með beinum né óbeinum hætti, alls ekki. Þetta eru búgreinar sem standa algjörlega á eigin fótum. Það þekkjum við sem stundum hrossaræktina í frístundum að þar eru engir styrkirnir. Þar eru menn að byggja upp viðskiptasambönd innan lands og utan, vanda sig við að rækta glæsilega og góða gripi og ná þannig markaðshlutdeild og athygli erlendis og innan lands á þessari ræktun og framleiðslu. Þetta eru greinar sem svo sannarlega þarf að halda utan um líka eins og alla hina vaxtarsprotana. Ferðaþjónustan hefur verið vaxandi búgrein. Hún líður að sjálfsögðu líka fyrir erfiða stöðu sem skapast af ýmsum öðrum vandkvæðum og getur tekið miklum stakkaskiptum til hins betra við aðild að Evrópusambandinu. Helsti kosturinn við landbúnaðarstefnu ESB að mínu mati er að hún styður sérstaklega við staðbundna búvöruframleiðslu og tengingu hennar við ferðaþjónustu í nágrenni framleiðslunnar. Í því til dæmis eru mikil sóknarfæri fyrir ferðaþjónustuna sem búgrein innan Evrópusambandsins.

Þegar þessar breytingar sem nokkuð fyrirsjáanlegar eru á umhverfi landbúnaðarins ganga yfir eru flestir af þeim bændum sem ég hef rætt málið við á þeirri skoðun að staða landbúnaðarins yrði þá miklu betri innan ESB heldur en einir og óstuddir utan þess fyrirkomulags þegar höggið ríður og þessar breytingar þurfa að ganga í gegn út af alþjóðaviðskiptasamningum. Ég held því að það sé ekki bara mikilvægt heldur mjög áríðandi fyrir íslenskan landbúnað og íslenskt dreifbýli að þessi mál verði leidd til lykta, að gengið verði til viðræðna, að við sjáum hvað við fáum út úr því og síðan kjósum við Íslendingar allir um það hvort við göngum þarna inn eða ekki.

Ísland getur svo sannarlega tryggt þessa hagsmuni ef vel gengur í samningaviðræðum. Það er ekki mikill bragur að því, eins og sumir hafa talað hér í umræðunum bæði í andsvörum og ræðum, að tapa samningaviðræðunum fyrir fram. Það er sjálfsögð krafa okkar að látið sé reyna á þessa hluti hvort sem við beinum sjónum okkar að gjaldmiðilsmálum, vaxtastigi, verðtryggingu og almennu fyrirkomulagi peningamála eða lítum til búgreinanna, byggðanna og allra hinna þáttanna. Það sem skiptir mestu máli í þeim viðræðum sem mögulega eru fram undan ef Alþingi samþykkir það að sótt sé um aðild að Evrópusambandinu er, eins og ég nefndi áðan og hef fjallað um í ræðu minni í dag, að verja stöðu landbúnaðarins, tryggja að hann komi sterkari og öflugri út úr aðild heldur en hann stendur núna, að við sækjum fram fyrir byggðirnar allar í heild sinni, mótum nýja og öfluga og kraftmikla byggðastefnu sem færir okkur öflugt fjölbreytt atvinnulíf á landsbyggðinni, annars vegar þetta og hins vegar það að yfirráðin yfir auðlindunum séu varin fullkomlega. Áhyggjur efasemdarmanna um aðild snúa að sjálfsögðu að auðlindayfirráðum, fullveldinu og stöðu landbúnaðarins. Ég tel sjálfur að með því að deila fullveldi okkar með öðrum 27, eða hvað þau verða mörg, fullvalda ríkjum muni fullveldi okkar að sjálfsögðu með einhverjum hætti breytast. En að það muni eflast. Við afsöluðum okkur fullveldið að einhverju leyti með EES-samningnum. Það er mikill lýðræðishalli á þessu fyrirkomulagi eins og það er í dag. Þetta er mjög óheppilegt fyrirkomulag að því leytinu ef litið er til lýðræðismálanna. Eins og hv. formaður Sjálfstæðisflokksins nefndi hérna í gær þá væri það einn af kostunum við inngöngu að við fengjum nokkra þingmenn á þingið, hefðum aðgang að viðræðunum og lagasetningaferlinu. Þetta taldi formaður Sjálfstæðisflokksins í gær sem einn af höfuðkostum þess sem möguleg innganga gæti fært okkur. Ég tek undir það.

Nefndarálitið fjallar ágætlega um öll þessi mál, orku- og auðlindamálin, fullveldismálin. Skora ég á sem allra flesta að kynna sér þetta vandaða yfirgripsmikla og góða álit sem tekur hispurslaust á mögulegum kostum og göllum aðildar, hættunum og sóknarfærunum og dregur þar ekkert undan. Hérna segir í álitinu á einum stað, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn leggur áherslu á að við þessa ítarlegu skoðun kom ekkert fram“ — ekkert fram — „sem gefur ástæðu til að ætla að aðild að ESB hefði áhrif á íslenska hagsmuni á ...“ — sviði orku- og auðlindamála — „og bendir í því sambandi einnig á að fyrirkomulag eignarhalds náttúruauðlinda er ekki viðfangsefni ESB heldur alfarið á hendi aðildarríkjanna þar sem innri markaðslöggjöfin tekur ekki á eignarhaldi.“

Allt bendir til þess að við munum ná ágætri stöðu þegar kemur að því. Við þurfum að tryggja forræði okkar yfir auðlindunum. Við verðum að tryggja stöðu byggðanna og taka umræðu um það hvernig fullveldismálum er fyrir komið með aðild. Það mál breyttist verulega þegar við gerðum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið fyrir fimmtán árum síðan þó það hafi fengið allt of litla athygli í rauninni í umræðunni með hvaða hætti var verið að koma þeim hlutum fyrir þá, með þeirri aukaaðild sem reyndist okkur að mörgu leyti mjög vel en að öðru leyti illa. Það þýðir ekki að tala um það núna að það hefði verið miklu heppilegra að ganga alla leið þá og sækja um aðild og kjósa um hana. En nú stöndum við á tímamótum. Hérna er eitt stærsta og mikilvægasta mál síðari tíma í meðförum Alþingis og núna við 2. umr. Umræðan hefur verið hófstillt og yfirveguð og hún hefur endurspeglað, finnst mér, þá breiðu samstöðu sem þrátt fyrir allt, þrátt fyrir opinbera stefnu einstakra stjórnmálaflokka í þessum málum, þá breiðu samstöðu sem hefur skapast úti í íslensku samfélagi til að sækja um aðild, láta reyna á það með þeim hætti og ganga síðan til þjóðaratkvæðis um samninginn.

Mér finnst umræðan hér, sú málefnalega að mestu leyti, hófstillta og ágæta umræða sem hefur staðið núna á annan þingdag endurspegla þessa staðreynd alveg prýðilega. Við höfum farið býsna langt í þessari umræðu á síðustu árum. Það hefur farið fram umræða um Evrópumál úti um allt samfélag í mörg ár. Nú erum við á Alþingi í rauninni að safna þessari umræðu saman, safna rökunum saman og þekkingunni sem hefur byggst upp á þessum málum hjá fjölda sérfræðinga, hjá fjölda áhugamanna um þessi mál á mörgum umliðnum árum. Nú erum við að safna þessum rökum saman um leið og við göngum til atkvæða um það eftir einhverja daga hvort Alþingi álykti að sótt verði um aðild að Evrópusambandinu. Það er vissulega ein stærsta ákvörðun sem Alþingi hefur tekið í mörg ár, ein af þeim stærstu. Þær hafa verið margar stórar á síðustu mánuðum og eru fleiri stórar og afdrifaríkar fram undan. En þetta er örugglega ein af stærstu og mikilvægustu ákvörðunum Alþingis. Þess vegna er ánægjulegt að á bak við þá ákvörðun — hvort sem menn segja já eða nei — liggur sú vandaða og djúpa og yfirgripsmikla vinna sem utanríkismálanefnd lagði í málið á síðustu vikum. Það er Alþingi Íslendinga til sóma að vel hefur verið staðið að þessu máli alveg frá upphafi til þessa dags. Þess vegna göngum við til atkvæðagreiðslunnar eftir nokkra daga með þá fullvissu í huga að vel hafi verið unnið að þessu máli, að vel hafi verið staðið að þessari miklu vinnu og þar á nefndin, eins og hefur komið fram hér sem rauður þráður í gegnum umræðuna eins og ég nefndi í upphafi ræðu minnar, almennt miklar þakkir skildar og fólk og þingmenn úr bæði stjórn og stjórnarandstöðu hafa ítrekað það. Hér er um að ræða sögulegt stórmál. Við ræðum það af vandvirkni og yfirvegun. Það hefur verið gert í dag og í gær og við munum gera það áfram svo lengi sem þingmenn telja að umræða hér þurfi að standa um þetta mál.