137. löggjafarþing — 39. fundur,  11. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[13:02]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Vesæll hefur málflutningur hv. þingmanns oft verið, ekki síst þegar hann stóð hér fyrir aðförinni að sparisjóðunum sem að lokum kostaði þá lífið. Maðurinn gekk hér fram af þvílíkri hörku, allt í nafni frjálshyggjunnar og fjárins án hirðisins til að rústa heilt sparisjóðakerfi, kemur hér svo upp og lætur eins og hann beri þar enga sök á málum. Ef hann ætlar að fara að vitna í einhverja fleiri sem að hans mati töpuðu fyrir fram skaltu bara líta þér nær, kæri hv. þingmaður, og vitna í þína eigin flokksbræður áður en þú gerir þig að enn þá minni karli en þú raunverulega ert.

Við skulum hins vegar ræða byggðamálin áfram af því að spurningin beindist að þeim. Ég ræddi hér aldrei um að bændur breyttust í styrkjabændur. Ég dró upp mynd af því kerfi sem sambandið hvíldi á sem væri ekki framleiðslutengt heldur byggðatengt og gerði þar með kerfinu kleift að styrkja nýsköpun og atvinnuhætti í sveitum óháð framleiðslu á einni eða tveimur tegundum greina. Svo máttu, kæri félagi, hv. þingmaður, snúa út úr þeim orðum mínum eins lengi og þú vilt og fara í andsvör við alla 63 þingmennina, eða 62 að þér undanskildum, nema þú viljir spyrja sjálfan þig líka, og spyrja hvernig sambandið líti út eftir 60 ár og 100 ár. Það er orðið aðhlátursefni úti um allt samfélag hvernig þingmaðurinn gengur fram í andsvörum.