137. löggjafarþing — 39. fundur,  11. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[13:52]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir einlæga ræðu og ágæta. Mig langar til að koma inn á kostnaðinn sem hv. þingmaður nefndi lauslega. Hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir fjallaði um það í gærkvöldi að kostnaðurinn við þessa aðildarumsókn væri áætlaður tæplega milljarður. Hún gat þess hins vegar að sú umsögn væri mjög veikburða og mundi örugglega tvöfaldast þegar fram liðu stundir þannig að við erum að tala um 2.000 millj. kr. á sama tíma og verið er að skera velferðarkerfið niður og hækka skatta.

Nú spyr ég: Finnst hv. þm. það skynsamleg afstaða að fara út í könnunarviðræður þegar meira að segja sjálfur hæstv. fjármálaráðherra hefur lýst því yfir, síðast í gær, að hann ætli ekki að ganga inn? Hann ætlar sem sagt að setja peninga, 2.000 millj. kr. í því mikla peningahallæri sem við búum við í dag í þetta og svo ætlar hann ekki að ganga inn. Er þetta ekki röng fjárfesting?

Svo er það spurningin um það sem við getum gefið. Það er mjög góð spurning. Hvað getum við gefið Evrópusambandinu? Ég hugsa að þeir sjái að við getum gefið þeim orku, auðlindir, fiskveiðar og mannauð. Ég held nefnilega að til framtíðar verði orkan okkar mjög verðmæt fyrir Evrópusambandið í orkuþjáðum heimi og þeir mundu miklu frekar vilja kaupa eða taka orku frá Íslandi með einhverjum neyðarlögum eftir 20 ár heldur en fá einhverja orku frá Rússlandi sem er miklu leiðinlegra. Þeir mundu líka vilja senda togara hingað frá Spáni til að veiða þorsk því það vantar mat í Evrópu. Svo er vatnið okkar náttúrlega alveg óborganlegt fyrir Evrópu því það er ekki mjög hreint vatn þar víða. Svo vil ég spyrja hv. þingmann: Vill hún sjálf að Ísland verði aðili að Evrópusambandinu eftir tíu ár?