137. löggjafarþing — 40. fundur,  13. júlí 2009.

uppbygging á Þingvöllum.

[15:01]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að beina fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra varðandi þann hörmulega bruna sem varð á Þingvöllum á föstudaginn þegar Valhöll brann, m.a. í ljósi ummæla sem voru höfð eftir hæstv. forsætisráðherra og einnig einstaka aðilum úr Þingvallanefnd og ríkisvaldinu: Hver er afstaða forsætisráðherra til uppbyggingar á svæðinu? Mér er kunnugt um að í forsætisráðherratíð Halldórs Ásgrímssonar var óskað eftir samráði við heimamenn, sveitarfélög og ferðaþjónustuaðila á svæðinu en mér er ekki kunnugt um að síðustu þrjár ríkisstjórnir hafi haft slíkt samráð og vil því fá fram í þingsal hvort hæstv. forsætisráðherra hafi eitthvað á prjónunum í þeim efnum.

Það er óþarfi að tala um að í þeim þrengingum sem við búum við í dag og svartnætti hafi þetta í sjálfu sér verið áfall. Ég hitti margt fólk um helgina sem fannst táknrænn bruni að sjá Valhöll, hvaða skoðanir sem menn hafa haft á því húsi, brenna með íslenska fánann í forgrunni þegar við vorum hér inni að ræða Evrópusambandsmál með Icesave og annað þungt hangandi yfir okkur. Ég held að það væri kannski jákvætt að héðan kæmu jákvæð skilaboð um að við þyrftum að fara í uppbyggingu, ekki síst í byggingargeira þar sem arkitektar og skipulagsfræðingar eru á fyrsta stigi eðli máls samkvæmt, hvort við ættum ekki að efna til einhverrar samkeppni um að byggja þarna myndarlega upp. Þær hugmyndir sem voru uppi á árunum 2002 og 2003 voru ekki endilega að byggja þar upp hótel með gistiaðstöðu eins og við þekkjum í dag en klárlega byggja þarna upp aðstöðu þar sem almenningur, þjóðin, getur komið saman og fengið sér kaffi og annað í sama dúr. (Forseti hringir.) Mig langar að heyra þetta, hæstv. forsætisráðherra.