137. löggjafarþing — 40. fundur,  13. júlí 2009.

aðildarumsókn að ESB og ríkisstjórnarsamstarf.

[15:09]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég held að enginn velkist í vafa um það að þegar þessi ríkisstjórn var mynduð var aðildarumsókn að því er varðar ESB mikilvægur þáttur í viðræðum sem fóru fram um stjórnarsáttmála eða samstarfssáttmála. Þar varð ákveðin niðurstaða sem fram kemur í samstarfssáttmálanum. Við vitum öll sem hér erum inni, og úti í þjóðfélaginu, að skoðanir eru skiptar milli flokkanna í þessu máli. Það hefur komið fram við umræðuna um þetta mál að skoðanir eru skiptar .

Einstaka þingmenn Vinstri grænna hafa lýst því yfir að þeir muni ekki greiða atkvæði að því er varðar ESB-tillöguna sem hér liggur fyrir. Það vitum við vel. Hv. þingmaður spyr sérstaklega hvað ég hafi átt við með að það væri komin upp ný staða ef þessi tillaga yrði ekki samþykkt. Ég held að ég þurfi ekki að skýra það neitt nánar. (Gripið fram í.) Ef það liggur fyrir að ekki verður samþykkt að fara í viðræður um aðild að ESB setjast menn yfir það, þá setjast stjórnarflokkarnir yfir það og meta þá stöðu sem þá verður komin upp. Ég held að það sé alveg ljóst að við hljótum að ræða það fyrst í okkar hópi áður en ég fer að lýsa einhverju yfir eins og mér fannst þingmaðurinn kalla eftir.