137. löggjafarþing — 40. fundur,  13. júlí 2009.

kennitöluskipti skuldugra fyrirtækja.

[15:20]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Fyrirspurn mín til hæstv. viðskiptaráðherra hljóðar svo: Hafa stjórnvöld sett stjórnum nýju bankanna reglur eða stefnu að vinna eftir varðandi kennitöluskipti skuldugra fyrirtækja?

Tilefni fyrirspurnarinnar eru fregnir í fjölmiðlum um að stórskuldug sjávarútvegsfyrirtæki hafi flutt bæði rekstur og eignir yfir á nýjar kennitölur með samþykki og vitund bankanna. Þar með hafi eignir, m.a. fiskveiðiheimildir, verið fluttar yfir á nýjan rekstraraðila en skuldir skildar eftir á gömlum kennitölum. Eins og ég sagði áðan mun þetta hafa verið gert með vitund og samþykki bankanna, m.a. Nýja Landsbankans og Íslandsbanka.

Þessar upplýsingar vekja áleitnar spurningar um stefnu og viðbrögð nýju bankanna sem nú eru í ríkiseigu og þar af leiðandi starfræktir á ábyrgð hins opinbera. Ég leyfi mér að fullyrða að íslenskur almenningur getur ekki sætt sig við þessi vinnubrögð, þau tilheyra óráðsíutímanum þegar menn gátu skotið sér undan ábyrgð á skuldbindingum. Nú er hrópað á nýja tíma og í ljósi þess óska ég nú svara frá hæstv. viðskiptaráðherra um viðbrögð við þessum upplýsingum.