137. löggjafarþing — 40. fundur,  13. júlí 2009.

kennitöluskipti skuldugra fyrirtækja.

[15:22]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Því er til að svara að stjórnvöld hafa ekki, svo mér sé kunnugt um, sett sérstakar reglur um þetta. Það getur vel verið að hin nýja og tilvonandi bankasýsla muni setja einhverjar slíkar reglur eða viðmið en það hefur ekki verið gert til þessa.

Hins vegar hefur þetta álitamál komið upp margoft og það er ekkert skrýtið þótt sitt sýnist hverjum þegar fyrrverandi eigendur, sem hafa í einhverjum tilfellum siglt fyrirtækjum í strand og skilið þau eftir stórskuldug, fá að endurreisa þau undir nýrri kennitölu. Það er auðvitað ekkert skrýtið þótt ýmsum sárni það hvort sem það eru starfsmenn eða keppinautar eða aðrir. Ég hlýt því að taka undir að það verður að stíga mjög varlega til jarðar í málum sem þessum.

Hins vegar verður einnig að hafa í huga að oft er það eðlileg leið til þess að bjarga verðmætum, þ.e. með því að gera fyrirtæki kleift að halda áfram í rekstri, að láta það skipta um kennitölu, eins og það er kallað, þar sem skuldir langt umfram greiðslugetu eru skildar eftir á gömlu kennitölunni og þess í stað er sett af stað nýtt fyrirtæki með nýja kennitölu og talsvert minni skuldir. Það kann því að vera eðlileg aðgerð til að bjarga verðmætum en það er þá mikið álitamál hvort eðlilegt er að fyrri eigendur taki við rekstrinum á nýrri kennitölu eða að nýir eigendur þurfi að koma til. Í sumum tilfellum kann að vera eðlilegt að fyrri eigendur haldi utan um reksturinn áfram einfaldlega vegna þess að þeir eru líklegastir til þess að búa til mest verðmæti úr eignunum en alls ekki öllum. Almennt tel ég að bankarnir ættu að hafa eins gagnsæja og augljósa stefnu (Forseti hringir.) varðandi þetta og hægt er þannig að ljóst sé eftir hverju er farið þegar er ákveðið er hvaða leið verður farin.