137. löggjafarþing — 40. fundur,  13. júlí 2009.

Icesave og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn.

[15:29]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Hér hefur það komið skýrt fram hjá hæstv. forsætisráðherra að embættismenn sjóðsins hafa sagt í samtölum að það væri betra ef þessu máli væri lokið, að búið væri að ganga frá Icesave-samkomulaginu til að liðka fyrir samstarfinu við sjóðinn.

Á mannamáli þýðir það auðvitað að það er eitt af þeim skilyrðum sem sett eru, það er augljóst því að þegar fínir embættismenn tala hvor við annan nota þeir einmitt svona orðalag, þá segja þeir einmitt: Ja, það væri æskilegra og betra.

Gott og vel. Ég vil þá líka nota þetta tækifæri og inna hæstv. forsætisráðherra eftir því hvort hún hafi kynnt sér hvert t.d. álit lagasviðs Seðlabankans væri á þessum samningi þegar heimilað var að íslensku samningamennirnir settu stafina sína undir það samkomulag sem gert var. Það er jú það svið sem hefur einna mesta reynslu af slíkri (Forseti hringir.) samningagerð og væri fróðlegt að vita hvort ráðherrann hafi kynnt sér álit þess áður en slíkt var heimilað.