137. löggjafarþing — 40. fundur,  13. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

150. mál
[15:41]
Horfa

Frsm. viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þremur þingmönnum sem hér hafa kvatt sér hljóðs fyrir stuðninginn við þetta mál og góð orð um að klára það hratt og vel.

Ég verð að gera athugasemd við að einhver sérstakur hraði við lagasetningu í lok maí hafi valdið því að nú þurfi að fara aftur inn í lögin. Við höfum margfarið yfir þetta. Ástæðan fyrir því að nú er farið í fjórða sinn inn í þessi lög frá setningu neyðarlaganna er fyrst og fremst hraðinn sem var við setningu neyðarlaganna. Það þurfti að fara inn í þau í nóvember til að skýra tiltekin atriði. Það þurfti að gera það aftur í apríl og aftur í maí.

Það gekk eftir sem sett var í lög 29. maí. Laun voru greidd út í þeim fyrirtækjum sem óskuðu eftir lagabreytingunum til þess og niðurstaða stjórnvalda hefur verið sú að heimild væri í lögunum til að slitastjórn SPRON gæti með sama hætti greitt fyrrverandi starfsmönnum þess fjármálafyrirtækis laun. Slitastjórnin var ekki á sama máli, eins og hér hefur komið fram, og því er þetta frumvarp flutt af viðskiptanefnd sem slíkri til að treysta þær heimildir sem fyrir eru og fyrst og fremst, eins og hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir sagði hér, til hagræðis fyrir starfsmenn til að þeir njóti launa sinna.