137. löggjafarþing — 40. fundur,  13. júlí 2009.

fjármálafyrirtæki.

150. mál
[15:43]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það verður að segjast eins og er að þessi ræða kom nokkuð á óvart. Nú er minni hlutinn í þessu máli — eins og að vísu flestum, ef ekki öllum öðrum — að reyna að hjálpa formanni og meiri hlutanum í þessu tilfelli að bjarga sér út úr vanda sem þeir algjörlega komu sér í sjálfir. Þetta er einhvers konar hámark þrjóskunnar að koma fram og segja: Það að við skyldum gera þetta á tveim dögum var ekki ástæðan fyrir þessu. Það að við skyldum ekki skoða þetta var ekki ástæðan fyrir þessu, heldur eitthvað allt annað.

Virðulegi forseti. Þetta mál var keyrt í gegn á tveim dögum. Hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir las upp minnihlutaálitið þar sem nákvæmlega var rakið hvernig vinnulagið var og hvaða hættur voru fyrir hendi. Það kom því miður allt á daginn, því miður. Það er ekki gott, virðulegi forseti, ef hv. þingmaður, formaður nefndarinnar, getur ekki séð þessi augljósu sannindi. Ef svo er skýrir það að nokkru hvernig við vinnum í nefndinni núna, en því miður var það svo. Okkur þykir öllum miður að hér urðu mistök vegna þess að nefndin vann þetta allt of hratt og gat ekki skoðað alla þætti málsins. Við ættum að setja það sem markmið að koma í veg fyrir að það gerist aftur.