137. löggjafarþing — 42. fundur,  13. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:51]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég kem inn í þessa umræðu fyrst og fremst til að þakka fyrir það sem hefur komið fram af hálfu hv. þingmanna sem hafa tekið til máls í umræðunni til þessa sem eru allmargir og ég vil þakka fyrir að umræðan hefur verið meira og minna mjög málefnaleg að mínu mati. Menn hafa lýst skoðunum sínum og sjónarmiðum í þessu efni, skipst á skoðunum. En það eru allmörg atriði sem ég tel mikilvægt að bregðast við sem formaður utanríkismálanefndar vegna þess sem komið hefur hér fram.

Ég vil fyrst segja að það hefur verið rætt talsvert um að vandað hafi verið til vinnunnar á vettvangi utanríkismálanefndar. Sumir hafa reyndar orðað það þannig að fram undir það síðasta hafi verið settur meiri hraði í málið. Margir hafa harmað það og ég vil aðeins fara yfir það betur en ég gerði í framsöguræðu minni með þessu nefndaráliti.

Nefndin hefur haft þetta mál til umfjöllunar núna í um það bil sex vikur og ég tel að það hafi verið unnið mjög kerfisbundið. Ég vil taka það fram að strax í upphafi nefndarstarfsins lagði ég fram í nefndinni ákveðið vinnuskema með mínum hugmyndum um það hvernig umræðunni yrði háttað, hvenær yrðu haldnir fundir, hvaða daga yrðu haldnir fundir, hversu langir þeir voru áformaðir. Ég get fullyrt að það plan sem nefndarmenn tóku vel og gerðu ekki athugasemdir við gekk í meginatriðum eftir. Mér er til efs að þannig hafi oft verið unnið á vettvangi þingnefnda Alþingis að slíkt sé lagt fram í upphafi máls — ég sé að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hristir höfuðið yfir því — en ég sagði að mér er til efs að þannig hafi oft verið unnið á vettvangi þingnefnda að strax í upphafi hafi verið lögð fram áætlun sem náði til mánaðartíma um það hvernig nefndin hygðist vinna. Ég held að ég geti staðið við það.

Þegar talað er um að það hafi verið hraði í lokin og menn hafi ekki haft tækifæri til að ræða ítarlega nefndarálitið sjálft þá vil ég upplýsa að í vinnu nefndarinnar lagði ég fram líka hugmyndir um uppbyggingu nefndarálits með kaflaskiptingu þannig að nefndarmenn gætu áttað sig á því hvernig hugmynd formannsins væri að vinna álitið. Við fengum margar heimsóknir og við ræddum kerfisbundið einstaka efnisþætti sem áformað var að taka til umfjöllunar í nefndarálitinu þannig að nefndarmenn gætu lýst skoðunum sínum. Varðandi það atriði að ekki hafi verið nægilegur tími til að fjalla um einstök mál, einstaka efnisþætti í nefndarálitinu sjálfu, þá kann vel að vera að einstakir nefndarmenn hefðu viljað fá rýmri tíma til þess. En ég get ekki látið hjá líða að geta þess líka að sumir nefndarfundir þar sem við vorum að ræða tiltekna efnisþætti urðu styttri heldur en áformað var vegna þess að umræðum um málið var lokið á viðkomandi nefndarfundi og menn töldu sig ekki þurfa að ræða þau frekar. Síðan var skrifaður texti í kringum þá umræðu og þau sjónarmið sem höfðu komið fram í samræmi við þann ramma sem áður hafði verið settur í starfi nefndarinnar. Afstaða mín er sú að allir efnisþættir málsins hafi fengið mjög góða umræðu og menn hafi lýst skoðunum sínum. Ég hygg að óhætt sé að fullyrða varðandi þau meginsjónarmið og meginhagsmuni sem lýst er í nefndarálitinu að Íslendingar mundu þurfa að gæta sérstaklega að þá hafi verið mikill samhljómur meðal allra nefndarmanna um þá þætti málsins. Það kom hins vegar í ljós undir það síðasta sem nefndin var með málið til umfjöllunar að skiptar skoðanir voru um málsmeðferðina sjálfa, þ.e. um þjóðaratkvæðagreiðslu og staðfestingarferlið.

Við ræddum þau mál á nokkrum fundum og það komu ýmsir, bæði fastir nefndarmenn en einnig varamenn í nefndinni og aðrir þingmenn sem tóku sæti á fundum utanríkismálanefndar — og af því að mér láðist að geta þess í framsöguræðu minni þá vil ég nota tækifærið hér og þakka þeim sérstaklega fyrir þátttöku á fundum nefndarinnar og framlag þeirra til þeirrar umræðu.

Nú er það auðvitað þannig að í máli af þessum toga var það ásetningur, held ég allra, í upphafi að reyna að ná sem breiðastri samstöðu í málinu. Ég held að það hafi í sjálfu sér tekist um efnisþætti málsins en ekki að sama skapi um hina formlegu hliðar, þ.e. formlegar leiðir í framhaldinu.

Ég ætla að nefna aðeins atriði sem komu frá stjórnarandstöðuflokkunum og liggja nú fyrir. Ég vil nefna til dæmis sérstaklega að Borgarahreyfingin lagði fram sínar hugmyndir um þætti sem þyrfti að gæta sérstaklega að. Það eru þættir sem varða lýðræðismálin sérstaklega, um það hvernig eigi að standa að þjóðaratkvæðagreiðslu, um að hún sé gegnsæ og opið allt það ferli, um upplýsingagjöfina til almennings, um erlenda ráðgjafa og fleiri slíka hluti. Þeim var almennt vel tekið og þá er alla að finna í nefndarálitinu, í umfjöllun nefndarinnar, ekki nákvæmlega með því sama orðalagi og kom fram í upphaflegri tillögu Borgarahreyfingarinnar. En allir efnisþættirnir eru þarna inni og það varð til þess að fulltrúi Borgarahreyfingarinnar ákvað að styðja málið með fyrirvara eins og fram hefur komið. Ég vil segja að mér finnst það sýna mikinn pólitískan þroska hjá Borgarahreyfingunni að taka einmitt þannig á málum, að taka efnislega afstöðu til þátta sem henni fannst mikilvægt að kæmu inn í nefndarálitið og við ræddum og komumst að mikilvægri niðurstöðu með það með hvaða hætti því yrði fyrir komið í nefndarálitinu og ég vil þakka sérstaklega fyrir það.

Ég ætla líka að víkja aðeins að sjónarmiðum sem Framsóknarflokkurinn hefur haft uppi. Þar má segja að útgangspunkturinn hafi verið samþykkt flokksþings Framsóknarflokksins fyrr á þessu ári þar sem samþykkt er að stjórnvöld skuli ganga til viðræðna við Evrópusambandið um aðild með tilteknum tilgreindum skilyrðum. Í lok þeirrar samþykktar er sagt að þetta séu þeir meginhagsmunir sem viðræðurnar eigi að grundvallast á. Í fyrri umræðu um þetta mál kom meðal annars af minni hálfu fram og sömuleiðis af hálfu utanríkisráðherra að við teldum að þau sjónarmið sem koma fram í samþykkt Framsóknarflokksins væru þess eðlis að það væri nánast sjálfgefið að halda þeim til haga í vinnu nefndarinnar og í nefndaráliti. Ég held því að megi fullyrða að um alla, ef mér skjöplast ekki, að um alla efnisþætti í samþykkt Framsóknarflokksins sé fjallað í nefndarálitinu og að tekið sé undir þau sjónarmið. Ég kem aðeins betur að því. Þess vegna var það alla vega mín afstaða að það væri mikilvægt að þau kæmu þarna fyrir og þeim væri lýst.

Það má kannski segja að munurinn felist í því sem endurspeglast líka í breytingartillögu frá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur að í flokkssamþykkt Framsóknarflokksins er sérstaklega talað um að þetta séu þau skilyrði sem eigi að setja fram í umræðunum. Nú hef ég reynt að lýsa því í fyrri umræðu og í umfjöllun þetta mál á fyrri stigum og sömuleiðis á vettvangi nefndarinnar varðandi þetta sjónarmið að það geti verið snúið að af hálfu Alþingis að setja fram hlutina eða þessi meginsjónarmið, meginhagsmuni fram sem afdráttarlaus skilyrði strax í upphafi. Af hverju? Jú, vegna þess að viðræðurnar ganga fyrir sig með þeim hætti að menn bera saman löggjöf umsóknarríkisins og löggjöf Evrópusambandsins í hverjum málaflokki fyrir sig. Þegar sá samanburður hefur farið fram átta menn sig betur á því hvar löggjöfin er ólík, hvað Ísland í þessu tilfelli þyrfti að gera í sinni löggjöf, til dæmis í sjávarútvegsmálum, til að hún samrýmdist löggjöf Evrópusambandsins. Í sumum tilfellum er löggjöfin ólík en praxísinn, lagaframkvæmdin lík. Í öðrum tilfellum er löggjöfin sambærileg en lagapraxísinn ólíkur. Þetta þarf að greina og gerist það í ítarlegri vinnu samningsaðilanna. Á þessum tímapunkti, þegar þetta allt liggur fyrir og menn sjá nákvæmlega hverju Íslendingar mundu þurfa að breyta í sínu lagaverki taka menn afstöðu til þess hvað sé ásættanlegt fyrir okkur, hvaða breytingar við getum fellt okkur við að gera til að samrýmast löggjöf Evrópusambandsins, hvað við getum alls ekki fellt okkur við og mundum ekki samþykkja og um hvaða hluti við mundum vilja gera sérstaka samninga um.

Á þessu stigi málsins kemur í raun inn spurningin um hvaða skilyrði við ætlum að setja. Í nefndarálitinu er því lýst mjög ítarlega hvernig þessi vinna eigi að fara fram og hver aðkoma allra aðila eigi að vera við að móta þessa samningsafstöðu, ekki bara stjórnvalda, þ.e. ríkisstjórnarinnar heldur líka Alþingis og hagsmunaaðila á viðkomandi sviði. Við lýsum því hvernig þeir eru dregnir að málinu og við segjum það á blaðsíðu 14 í nefndarálitinu að að mati nefndarinnar verði ekki vikið frá þessum meginhagsmunum nema það sé rætt á vettvangi Alþingis. Þetta tel ég að sé sterkari fyrirvari en setja fram fyrirframskilyrði sem í raun er dálítið óljóst hvað felst í. Þegar menn segja það skilyrði að halda forræði yfir fiskveiðiauðlindinni þá segir ekkert nákvæmar í samþykkt Framsóknarflokksins í hverju það felist. Við reynum að lýsa því í nefndaráliti. Menn geta verið ósáttir við sumt af því sem þar er eða kannski ekki fullkomlega sammála en eins og ég horfi á málið þá er þarna miklu meiri og betri rammi utan um þessa vinnu. (Gripið fram í: ... breytingartillögu við þingsályktunartillöguna.) Við gerum breytingartillögu við þingsályktunartillöguna eins og hún kom frá utanríkisráðherra til að hnykkja á nákvæmlega þessu, að við vinnu stjórnvalda í þessu máli, verði tillagan samþykkt, að þá eigi að fara eftir þeim meginsjónarmiðum og verklagi sem nefndarálitið lýsir. Við erum sem sagt að þrengja rammann utan um umboðið sem stjórnvöld fá. Kalla má að það séu skilyrði, að verið sé að setja ákveðin skilyrði utan um það umboð sem stjórnvöld fá í þessu máli og það er búinn til mekanismi til að tryggja það að bæði allir stjórnmálaflokkar á Alþingi og hagsmunaaðilar á hverju sviði fyrir sig hafi aðkomu að þeirri umræðu. Ég tel að þetta sé að mörgu leyti betri leið og mér finnst hún koma fullkomlega til móts við það sem Framsóknarflokkurinn var með í sinni samþykkt. Þess vegna hlýt ég líka að kalla eftir því af hálfu Framsóknarflokksins hvernig framsóknarmenn sjái að þeir geti komið til móts við sjónarmið annarra í þessu máli ef þeir hafa áhuga á því vegna þess að það er auðvitað þannig í svona vinnu að allir leggja eitthvað í púkkið og menn reyna svo að finna sameiginlega lausn sem allir geta sameiginlega við unað.

Síðan aðeins um tvöföldu þjóðaratkvæðagreiðsluna sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt til. Ég vil fyrst segja, af því að því hefur verið haldið fram í umræðu að þetta sé mál sem fleiri flokkar hafi verið með á sinni stefnuskrá, að ég hef ekki orðið var við annað en að Framsóknarflokkurinn til að mynda hafi horfið frá tvöfaldri þjóðaratkvæðagreiðslu. Á miðstjórnarfundi hjá þeim á síðasta ári var rætt um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. En það var síðan ekki inni í flokkssamþykktinni á þessu ári og formaður Framsóknarflokksins lýsti því hér í ræðu um málið að Framsóknarflokkurinn hefði horfið frá tvöfaldri þjóðaratkvæðagreiðslu þó einstakir félagar í flokknum eða þingflokknum geti verið þeirrar skoðunar að það sé góð leið. Við það geri ég engar athugasemdir nema síður sé. En ég hef ekki litið þannig á að það sé hin flokkslega samþykkt.

Hvað varðar til dæmis okkur í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði þá var tvöföld atkvæðagreiðsla rædd á flokksráðsfundi flokksins nú í desember. En það varð ekki niðurstaða flokksráðsins að fara hana og á landsfundi flokksins í mars var það heldur ekki niðurstaðan að hana ætti að fara. Við höfum sem flokkur því aldrei talað fyrir henni þó að einstakir flokksmenn eða þingmenn hafi frá einum tíma til annars sagt að þetta sé leið sem ætti að skoða sérstaklega. Ég vil bara draga þetta fram í fullri einlægni við hv. þingheim. Þessi viðhorf hafa verið uppi en þau urðu ekki niðurstaðan til dæmis hvað okkur varðar og mér sýnist að það sé einungis Sjálfstæðisflokkurinn sem beinlínis hefur gert flokkssamþykkt um að fara eigi þessa leið.

Varðandi síðan málsmeðferðina að öðru leyti, um þjóðaratkvæðagreiðslu í lokin, að þá hefur talsvert verið tekist á um hvort hún eigi að vera bindandi eða leiðbeinandi. Allir eru sammála um að aðildin að Evrópusambandinu, hugsanlegur aðildarsamningur verði lagður fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég lít svo á að það hafi í raun verið sagt í samþykktum flokkanna flestra að niðurstöður aðildarviðræðna eigi að bera undir þjóðina, þ.e. aðildarsamning, efnisatriði aðildarsamnings eigi að bera undir þjóðina í atkvæðagreiðslu. Ég tel mikilvægt að það sé gert þá þegar slíkur samningur liggur fyrir og það sé leiðsögn þjóðarinnar til Alþingis um það hvort halda eigi áfram og taka næstu skref eða ekki. Ef þjóðin hafnar aðildarsamningi í atkvæðagreiðslu þá fari Alþingi ekki að taka einhver ný skref í málinu í átt að aðild, ef þjóðin samþykkir samning í atkvæðagreiðslu þá fari Alþingi að undirbúa næstu skref sem væru breytingar á stjórnarskránni sem heimiluðu eða gerðu aðild að Evrópusambandinu mögulega og það yrði farið yrði með slíka stjórnarskrárbreytingu eins og stjórnarskráin mælir fyrir um með þingrofi, nýjum kosningum og nýtt þing kæmi að því að fullgilda eða fullnusta stjórnarskrárbreytingar.

Ég hef sagt og ég vil sérstaklega beina þeim orðum mínum til þingmanna Sjálfstæðisflokksins að í slíkum stjórnarskrárbreytingum kemur ekkert í veg fyrir að menn skrifi inn í þær það sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið að leggja til, þ.e. að fullgilding á aðildarsamningi eigi að fara í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu í lokin. En þá skulum við hafa það í huga hvernig svoleiðis bindandi atkvæðagreiðsla gæti farið fram og því er lýst í minnisblaði Bjargar Thorarensen prófessors og Davíðs Björgvinssonar, dómara við Mannréttindadómstólinn í Evrópu. Þar lýsa þau því að bindandi þjóðaratkvæðagreiðsla geti fyrst farið fram eftir að það hafi komið ákvæði um hana inn í stjórnarskrá og að Alþingi mundi þurfa að fullgilda aðildarsamning að Evrópusambandinu með lögum og það væri í gildistökuákvæði slíkra laga að finna formúleringar um að lögin tækju þó ekki gildi fyrr en þau hefðu verið staðfest í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég held að óumdeilt sé að þetta mundi verða aðferðin. Þá segi ég: Mér finnst ekki eðlilegt að Alþingi taki ákvörðun um það á grundvelli aðildarsamnings að ráðast í slíkar breytingar að samþykkja lög sem mæla fyrir um aðild Íslands að Evrópusambandinu án þess að þjóðin hafi nokkurn tíma komið að því að kjósa um þann aðildarsamning. Mér finnst það ekki ganga alveg upp. Af hverju ætti ég til dæmis að samþykkja á vettvangi Alþingis lög um aðild að Evrópusambandinu sem ég ætlaði að vísu að setja undir þjóðaratkvæði í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu án þess að hafa fengið afstöðu þjóðarinnar til aðildarsamningsins sem slíks? Þess vegna tel ég að það sé algert lykilatriði að aðildarsamningurinn sem slíkur fari í þjóðaratkvæðagreiðslu og þá og því aðeins að þjóðin samþykki hann verði ráðist í næstu skref. Ég er reiðubúinn til að segja að ég mun fylgja vilja meiri hluta þjóðarinnar. Ég er reiðubúinn til þess fyrir mína parta. Ég er reiðubúinn til þess ef þjóðin samþykkir aðildarsamning að stuðla að því að sett verði á Alþingi lög til að fullnusta þann gjörning jafnvel þó það síðan verði með stjórnarskrárbreytingu kveðið á um að slík lög mundu þurfa að fara í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu í lokin. Þetta margsagði ég á fundum utanríkismálanefndar og spurði Sjálfstæðisflokkinn: Er Sjálfstæðisflokkurinn ekki reiðubúinn til að fallast á svona málamiðlun þar sem tekin væru annars vegar mið af þeim sjónarmiðum sem ég og fleiri höfum haft um að aðildarsamningurinn eigi að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu og fallist á hugmyndir Sjálfstæðisflokksins um bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu lokinni? Ég segi fyrir mína parta að ég hef lagt mig fram um það í þessari vinnu að ná breiðri samstöðu. Ég hef lagt mig fram um að miðla málum, að fá fram sjónarmið annarra og koma til móts við þau. En í þessu atriði hef ég því miður ekki fundið að það hafi verið neinn vilji til að koma til móts við okkur sem höfum talað þessu máli. Það finnst mér bagalegt vegna þess að ég ætlast að sjálfsögðu til þess ef menn reyna að miðla málum og finna lausnir til að ná breiðri samstöðu að allir leggi eitthvað í púkkið í því efni og það verð ég að segja alveg eins og er, frú forseti, að mér hefur fundist vanta á það.

Um það hefur verið spurt í þessari umræðu hvað gerist ef ekki verður ásættanlegur samningur í einhverjum samningskafla, ef stjórnvöld upplifa það þannig að þau komist ekki nægilega langt til dæmis í sjávarútvegsmálum eða landbúnaðarmálum í samningum. Hvað gerist þá? Þá segi ég: Ef það yrði tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla þar sem þjóðin samþykkir í upphafi að fara í aðildarviðræður þá getur enginn annar en þjóðin sjálf hætt þeim viðræðum. Þá verður að mínu viti Alþingi og ríkisstjórn að klára þær viðræður og koma með samning hversu slæmur sem hann kann að verða. Ef Alþingi hins vegar tekur ákvörðun um það að fela ríkisstjórninni að sækja um aðild þá getur ríkisstjórnin eða Alþingi tekið ákvörðun um að hætta þeim hvenær sem er í þessu ferli. Þetta sagði til dæmis hæstv. fjármálaráðherra í umræðum á föstudaginn og í framsöguræðu minni með þessu máli sagði ég meðal annars með leyfi forseta:

„Í þessu sambandi vil ég einnig halda því til haga að stjórnvöld geta hvenær sem er dregið sig út úr aðildarviðræðum ef þeim þykir einsýnt að hagsmunum Íslands verði áfram betur borgið utan sambandsins eða fyrir liggi að ekki náist ásættanlegur aðildarsamningur. Þá gæti Alþingi jafnframt á hverju stigi málsins með sama hætti ályktað um að aðildarviðræðum skuli hætt. “

Þessi möguleiki væri ekki til staðar ef farið yrði í þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarsamning í upphafi nema það sé þá gert með nýrri þjóðaratkvæðagreiðslu, að það sé þjóðin sjálf sem ákveði að hætta viðræðum. Sá sem hefur þær getur hætt, enginn annar. Ef þjóðin ákveður að setja þær í gang þá getur ríkisstjórnin ekki komið allt í einu og sagt: „Nú ætlum við að hætta.“ Hún verður að koma með samning „koste hvad det koste vil“ eins og maður segir. Þess vegna hef ég núna komist að þeirri niðurstöðu að best sé að Alþingi samþykki þetta skref með þeim hætti sem meiri hluti utanríkismálanefndar leggur til, með skýrari ramma utan um það umboð sem stjórnvöld setja, með skýra aðkomu Alþingis að viðræðuferlinu og hagsmunaaðila. Ég tel að það sé sterkast í þeirri stöðu sem við erum núna.

Rétt aðeins örfá orð um kostnað. Það hefur verið talað talsvert um kostnað hérna og að hann sé mikill við viðræðum. Já, hann er mikill við viðræður af þessu tagi. Það verður bara að segjast alveg eins og er. Alþingi verður að vera meðvitað um að ef það ákveður að fara í svona leiðangur þá mun það kosta umtalsverðar fjárhæðir. Því hefur verið lýst að þessi kostnaðaráætlun sé algerlega út úr kortinu. Ég get í sjálfu sér ekki fullyrt um það. Þarna hafa starfsmenn í ráðuneytinu sem hafa reynslu af málum af þessum toga gert sitt besta til að varpa ljósi á það hvaða kostnaður gæti hlotist af viðræðunum eins og þeim er lýst af hálfu stjórnvalda, þ.e. hvernig þær gengju fyrir sig og ég treysti því að þeir hafi lagt sig fram um það og gert sitt besta og ég ætla ekki að draga það í efa. Mér finnst að þeir sem koma og segja eitthvað annað, að þetta sé algjörlega út úr korti, að það sé ekki nóg bara að segja það, menn verði þá að leggja fram einhver rök til stuðnings máli sínu. Vel kann að vera að þau séu til. En þau verða þá að koma fram í umræðunni. Menn verða að rökstyðja fullyrðingar sínar í þessu efni, ekki bara að slá þeim fram. Ég hef heyrt þingmenn og jafnvel ráðherra tjá sig um þetta með þeim hætti að mér finnst það ekki algerlega vera (Gripið fram í: Ertu að tala um ...) (Gripið fram í: ... að slá á puttana á ...) fullkomlega ábyrgt.

Svo hafa menn í þessari umræðu líka talsvert (Gripið fram í.) talað um sannfæringu og ég ætla að tala aðeins um hana. Það er sagt: „Menn eiga að fylgja sannfæringu sinni.“ Já, auðvitað eiga menn að gera það. Mér finnst stundum eins og undirtónninn sé dálítið sá að það séu bara þeir sem ætla ekki að fylgja meiri hlutanum í sínum þingflokki sem séu að fylgja sannfæringu sinni rétt eins og þeir sem eru, við getum sagt, fyrir meirihlutasjónarmiði í þingflokki hafi ekki sannfæringu í málinu. Ég hef sannfæringu í þessu máli og ég ætla að fara eftir henni.

Mín sannfæring er sú að við eigum að taka þetta skref núna að fara í viðræður við Evrópusambandið og leita leiða til þess að þjóðin geti kosið um niðurstöður slíkra viðræðna. (Gripið fram í.) Ég áskil mér allan rétt eins og við Vinstri græn og reyndar Samfylkingin líka gerum í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna til þess að berjast fyrir okkar málstað, okkar sjónarmiðum varðandi málið þegar efnisþættir þess liggja allir fyrir í aðildarsamningi. Við áskiljum okkur allan rétt til þess að sjálfsögðu. En sannfæring mín er sú að við eigum að koma þessu máli í þennan lýðræðislega farveg. Það hefur verið mikil umræða undanfarin missiri og ár um Evrópusambandsmálin og ég er kominn á þá skoðun að núna sé mikilvægt að fara að fá einhvern botn í þau með einhverjum hætti, eins og margir hafa sagt, og það sé best gert með því að fá nákvæmlega fram hvað felist í aðild að Evrópusambandinu, hvað nákvæmlega felist í þeim lausnum sem við fengjum til dæmis í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum, auðlindamálum, gjaldmiðilsmálum og öðrum málum sem við teljum mikilvæg. Við getum fabúlerað um það hvað sé líklegt og ég hef alveg skoðanir á því að það sé kannski ekkert óskaplega líklegt að við náum öllu því fram sem við mundum vilja fá fram. En ég vil fá það upp á borðið og ég vil að þjóðin kjósi um nákvæmlega það, um efnisatriði samningsins en ekki einhverjar spekúlasjónir sem margt getur svo sem verið til í en við vitum ekki fyrir víst.

Þetta þykja mér mikilvæg atriði, frú forseti, og ég vil svona um miðbik umræðunnar — án þess að ég viti nokkuð um hvað hún verður löng — en kannski um það bil um miðbik umræðunnar langaði mig til þess að koma þessum viðhorfum á framfæri, skýra aðeins betur vinnuna á vettvangi nefndarinnar og hvernig hún hefur farið fram. Ég er þakklátur fyrir vinsamleg ummæli margra þingmanna um það hvernig staðið hefur verið að þessari vinnu á vettvangi nefndarinnar. Ég tel að innstæða sé fyrir því, ekki bara hvað sjálfan mig varðar sem formann heldur alla nefndarmenn. Þar er enginn undanskilinn og eins og ég sagði í framsöguræðu minni þá tel ég að allir nefndarmenn og varamenn sem hafa setið fundi eigi hlutdeild í því nefndaráliti sem meiri hlutinn lagði hér fram þó að menn hafi ekki orðið sammála um niðurstöðuna, um málsmeðferðina í lokin.

Ég vil því þakka enn og aftur þingmönnum sem hafa tekið þátt í þessu verki fyrir framlag þeirra. Ég tel að það hafi verið mikilsvert og ég tel að í þessu nefndaráliti sé safnað saman mjög mikilsverðum upplýsingum, hlutlausum upplýsingum. Sumir segja að ýmislegt sé fegrað í þessu nefndaráliti um Evrópusambandið og hverju við gætum hugsanlega náð fram. Það eru líka þarna býsna sterkir fyrirvarar við aðra hluti. Það hefur því verið reynt að halda jafnvægi í álitinu eins og hægt er. Sumir kvarta undan því að það ekki sé tæpt á mikilvægum hlutum eins og lýðræðinu á vettvangi Evrópusambandsins og að ekki sé nógu vel um það fjallað. Menn geta haft ýmsar skoðanir á því. Ég dró suma hluti af því fram í framsöguræðu minni þegar ég sagði að þegar þjóðin tekur þetta mál til umfjöllunar og tekur afstöðu til þess þá væri mikilvægt að ræða ekki bara efnisatriði samningsins heldur líka þessi grundvallaratriði, grundvallarsjónarmiðin, hugsjónirnar sem sumir bera í brjósti varðandi þátttöku í Evrópusambandinu og aðrir bera í brjósti varðandi það að viðhalda og halda fullu sjálfstæði og fullveldi Íslands og láta ekkert það af hendi. Það eru alveg gild rök á báða bóga í þessari umræðu að sjálfsögðu og þetta þarf að gera og inn á þetta kom ég í framsöguræðu minni, hafi því ekki verið gerð nægileg skil í nefndaráliti.

Frú forseti. Ég vildi bara koma þessum atriðum á framfæri þegar hér er komið sögu í þessari umræðu. Ítreka ég þakkir mínar fyrir framlag nefndarmanna til vinnunnar og þakka hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðunni til þessa fyrir málefnalegt innlegg.