137. löggjafarþing — 42. fundur,  13. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hæstv. forsætisráðherra sagði í ræðu sinni jafnframt að ef niðurstaðan yrði sú að Alþingi hafnaði þessari tillögu mundu stjórnarflokkarnir að sjálfsögðu setjast yfir það mál og ráða ráðum sínum. Það held ég að við munum gera. Ég legg engan sérstakan skilning í þessi ívitnuðu orð forsætisráðherra, held frekar að þau hafi verið sögð að óhugsuðu og óathuguðu máli og sé enga ástæðu til að leggja í þau sérstaka merkingu um að í þeim felist skilaboð um að þetta mál verði að fást afgreitt hér ella séu dagar ríkisstjórnarinnar taldir, eins og hv. þingmaður var örugglega að ýja að. Þegar ríkisstjórnin var mynduð lá fyrir að í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs yrði ekki fullkominn stuðningur við að veita tillögu um þetta efni brautargengi og það lá alveg fyrir að af okkar hálfu var fyrst og fremst samkomulag um að málið kæmi inn í þingið til þinglegrar meðferðar og það hefði engin frekari áhrif. Ekki af hálfu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.