137. löggjafarþing — 42. fundur,  13. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:18]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég segi ekki sannara orð en að þetta hafi verið ein af málefnalegri og betri ræðum sem hafa verið fluttar við síðari umr. um aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Margt fróðlegt og athyglisvert kom fram í máli þingmannsins sem rakti þetta alveg prýðilega. Frá því að við hv. þingmaður fórum að ræða þessi mál af og til í þinginu fyrir nokkuð mörgum árum síðan hefur gerst það sem hv. þingmaður kom nokkuð vel inn á, að býsna breið samstaða hefur skapast um málið úti í samfélaginu. Eins og menn sjá í þinginu er hún þvert á flokka og eftir á að koma í ljós hversu myndarlegur meiri hluti verður fyrir málinu en úti í samfélaginu virðist hafa skapast alveg prýðileg samstaða um að sækja um aðild og bera síðan með samninginn undir þjóðaratkvæði — sem er afskaplega skynsamleg leið.

Ég var mjög hrifinn af því hvernig Framsóknarflokkurinn lagði þetta upp á febrúarþingi sínu og dáðist nokkuð að því hvernig flokkurinn leiddi þetta til lykta, ekki síst þeim samningsmarkmiðum sem flokkurinn skilgreindi og utanríkismálanefnd tók mjög upp í sínu áliti, og fjallaði ítarlega um mörg af meginatriðunum. Ég get tekið undir að stuðningur minn við aðildarsamning, þegar hann kemur, er t.d. skilyrtur við að, eins og segir í ályktun Framsóknarflokksins: „Framleiðsla og úrvinnsla íslenskra búfjárstofna verði tryggð ásamt sérstöðu og hreinleika íslenskra búfjárstofna.“ Við verðum náttúrlega að ná því fram að Íslendingar einir hafi veiðirétt innan fiskveiðilögsögunnar, að staða landbúnaðarins og byggðanna sé ekki bara tryggð og varin heldur bætt og styrkt og svo mætti telja ýmislegt annað upp. Ég vil spyrja þingmanninn hvort hún telji ekki að samstaðan sé svo augljós, bæði hvað varðar skoðanakannanir og í yfirlýsingum eins og hún las upp áðan, að það þurfi enginn að efast um að meðal þjóðarinnar sé ríkur vilji til að sækja um.