137. löggjafarþing — 42. fundur,  13. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:29]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt að ég kalla mig Evrópusinna en þar með segi ég ekki að við eigum að ganga inn í Evrópusambandið, það hef ég aldrei sagt. Ég hef alltaf sagt að við eigum að fara í viðræður og sjá hvað býðst, þar tökum við svo afstöðu. Það getur vel verið að þegar samningurinn liggur á borðinu segi ég að við eigum ekki að ganga þarna inn. Það fer eftir því hvað kemur út úr samningunum. Ég er alls ekki tilbúin til að kveða upp úr um það á þessari stundu. Ég kveð upp úr um það að fara í aðildarviðræðurnar á grundvelli ákveðinna sjónarmiða en síðan tökum við afstöðu þegar pakkinn er kominn á borðið, eins og það heitir.

Ég er alls ekki ósátt við flokksþing Framsóknarflokksins. Mér finnst það stórglæsilegt og frábært flokksþing. Ég var að rekja hvernig ályktun okkar varð til, fór í gegnum sögulegar staðreyndir. Það er ekki rétt, sem hv. þingmaður hélt, að ég hafi sagt að við hefðum ekki lent í bankahruninu ef við hefðum verið í ESB. Ég sagði það alls ekki, ég veit ekkert um það. Ég sagði að það væru sterkar líkur á — og það er mitt mat, ég get ekki sannað það — að þó að við hefðum ekki lent í bankahruninu, hér hefði ekkert skeð, værum við samt að ræða um hugsanlega aðildarumsókn að ESB. Þetta er mál sem hefur verið í pólitískri umræðu í mörg ár. Af hverju hefur Framsóknarflokkurinn ályktað um það? Við ályktuðum að fara í aðildarumræður. Það var reyndar eftir bankahrunið en ég tel að við hefðum rætt um aðildarumsókn óháð því hvort við lentum í þessu bankahruni eða ekki. Menn mega ekki tengja þetta saman.

Ég kannast mjög vel við að IMF, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, tafði að láta okkur hafa lán vegna andstöðu ESB-ríkja og Noregs. Noregur var líka með í þeim pakka að einhverju leyti. Ég ætla ekki að lýsa því nákvæmlega en Evrópusambandið var ekkert að liðka til í þeim málum, alls ekki.