137. löggjafarþing — 42. fundur,  13. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:33]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ef öllum skilyrðum og meginmarkmiðum sem við höfum sett fram yrði fullnægt finnst mér mjög líklegt að ég mundi mæla með því að við gengjum inn í Evrópusambandið, (PHB: Mjög líklegt? Hvar er sannfæringin?) já, mér finnst það mjög líklegt. Ég vil ekki kveða sterkar upp úr með það en mér finnst mjög líklegt að ég mundi gera það ef skilyrði okkar kæmust öll í gegn. Það er vegna þess að ég hef ákveðna sannfæringu fyrir því að við eigum heima í samstarfi Evrópuþjóða og að allt annað inntak sé komið í hugtökin samvinna, sjálfstæði og lýðræði en var á fyrri tíð. Mikil hnattvæðing á sér stað og ef okkar skilyrðum verður fullnægt eru líkur á að okkur reiði betur af í slíku samstarfi en ekki. Meiri líkur á að hingað mundi fólk vilja koma, fjárfesta í íslenskum fyrirtækjum og taka þátt í að byggja upp með okkur. Mér fyndist það miklu líklegra heldur en ef við værum utan við. En þá er það þessi fyrirvari, skilyrðin okkar þurfa að koma samningsmarkmiði í höfn.

Ég vil ekki gefa eftir sjávarútvegsauðlindina. Ég vil benda á að í álitinu, sem er samningsumboðið, segir að meiri hlutinn telji „að raunhæf leið til að tryggja forræði íslenskra stjórnvalda með framangreindum hætti innan íslenskrar efnahagslögsögu sé að lögsagan verði t.d. skilgreind sem sérstakt íslenskt fiskveiðistjórnarsvæði. Þannig verði réttindi ekki til staðar fyrir erlend fiskveiðiskip til veiða innan íslenskrar efnahagslögsögu úr staðbundnum íslenskum stofnum“. Þetta er reyndar hugmynd sem Halldór Ásgrímsson, þáverandi formaður Framsóknarflokksins, kom með. Það eru nokkur ár síðan og merkilegt að upplifa að nú er þetta búið að skila sér inn í nefndarálit frá meiri hluta utanríkismálanefndar.