137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

störf þingsins.

[13:31]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður og formaður utanríkismálanefndar, Árni Þór Sigurðsson, fer mikinn í fjölmiðlum í dag þar sem hann lýsir skoðun sinni á lögfræðingum Seðlabanka Íslands og þeim skoðunum sem þeir hafa lýst í minnisblöðum sem eru reyndar háð leynd um sinn í hv. fjárlaganefnd. Seðlabankastjóri kom sjálfur á fund fjárlaganefndar og gerði grein fyrir því hvaða skoðun Seðlabankinn hefði á því samkomulagi sem ríkisstjórnin hefur skrifað undir um Icesave. Farið var fram á það að minnisblaðið yrði geymt og síðan unnið betur að því hvað varðar einstakar tölur í álitinu. Hins vegar voru engar athugasemdir gerðar við þá skoðun sem fram kom af hálfu lögfræðinga Seðlabanka Íslands um það samkomulag og þann samning sem unninn hefur verið af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Ég get ekki farið í það sem stendur í þessu minnisblaði enn þá. Ég á von á að þeirri leynd sem á því hvílir verði aflétt hið allra fyrsta enda hefur ríkisstjórnin margoft sagt að um þetta mál skuli engin leynd hvíla. En ekki hefði ég viljað fá þann dóm sem lögfræðingar Seðlabanka Íslands gefa samninganefnd fjármálaráðherra í þessu máli. Það þótti ekki ástæða til að tala við þá lögfræðinga sem hvað mesta þekkingu hafa á því að semja um lán fyrir íslenska ríkið. Þeir voru ekki spurðir að því hvað þeim fyndist um þetta. En hv. þm. Árni Þór Sigurðsson á ekki í vandræðum með að lýsa skoðunum sínum á þessu. Hann segir, með leyfi forseta, í fjölmiðlum í dag:

„Er þetta ekki bara fólk sem er enn þá í vinnu hjá gamla seðlabankastjóranum? Maður veltir því fyrir sér.“ — Og áfram heldur hann: „Það er einfaldlega verið að blekkja þingnefndirnar með þessum hætti. Ég velti fyrir mér hvort menn séu þarna á einhverju einkatrippi. Fyrir mér virðist sem viðkomandi starfsmaður sé enn að vinna fyrir Davíð Oddsson.“

Þarna er um að ræða Sigríði Logadóttur, aðallögfræðing Seðlabanka Íslands. Þetta fólk er auðvitað með Davíð Oddsson enn þá á heilanum. Það er ekki hægt að taka mark á því sem helstu sérfræðingar landsins á þessu sviði segja (Forseti hringir.) og þetta er fólkið, virðulegi forseti, sem ætlaði að fara með hagsmuni íslensku þjóðarinnar í samningnum við Evrópusambandið og það er ekki boðlegt eins og menn halda á þessu máli.